141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér litlu við mitt fyrra svar að bæta í þessu efni. Þetta er spurningin um það hvort menn fara hraðferð eða hægari ferð í gegnum þetta mál. Ég held samt að eðlilegt sé, þegar við stígum skref af þessu tagi, að við virðum og nýtum það fyrirkomulag sem umsagnarferlið gefur okkur. Ég hef vanist því á þeim fáu árum sem ég hef verið á þinginu að taka það ferli mjög alvarlega. Ég tel mikilvægt að þingheimur líti ekki á það sem formsatriði heldur að það skipti raunverulega máli þegar við gerum breytingar sem varða samfélagið miklu að við köllum eftir sjónarmiðum utan úr samfélaginu og ekki bara köllum eftir þeim heldur tökum líka mark á þeim þegar þau berast. Það er hlutur sem ég vil hafa í heiðri og ég tel reyndar að eitt sem þarf að gerast í vinnubrögðum þingsins með hliðsjón af fortíðinni er að við hefjum umsagnarferlið til frekari vegs og virðingar.

Síðan ítreka ég að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fara inn í það umhverfi að upplýst ákvörðun fylgi skráningu í trúfélag og lífsskoðunarfélag og mun beita mér fyrir þeirri breytingu fyrir minn hatt. En hér tala ég fyrir áliti meiri hlutans sem komst að þessari niðurstöðu í þessum áfanga.