141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:20]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmanni minnihlutaálitsins fyrir mikla yfirferð, allt frá tækjakaupum Landspítalans. Mig langar þá að nýta tækifærið til að fagna því að við höfðum svigrúm til að hækka verulega fjárframlög til tækjakaupa Landspítalans í þessum fjárlögum. Því ber að fagna. Ég held að aðrir eins fjármunir hafi ekki verið lagðir í þau síðan einhvern tíma þó nokkru fyrir góðærið. Fólk leiðréttir mig ef það er rangt.

Það sem mig langaði þó að velta upp við hv. flutningsmann minnihlutaálitsins er sú hræðsla sem ég hef skynjað um að einhverjir svindli sér inn sem lífsskoðunarfélag, einhverjir fari að villa á sér heimildir og komist í gegnum eitthvert ferli og verði að lífsskoðunarfélagi til að fá peninga frá ríkinu og njóta góðs af almannafé.

Ég velti fyrir mér á móti hvernig það sé þegar félag sækir um að gerast trúfélag. Hvernig er það ferli í dag? Ég vona, og spyr af því að ég veit það ekki, að það ferli fari fyrir einhverja nefnd sem taki málið fyrir. Við hljótum að treysta þeirri meðferð sem við höfum í því. Því ætti annað að gilda um lífsskoðunarfélög? Sérstaklega ef við lítum til nágranna okkar sem við vitnum oft til vegna þess hversu vel gengur, þ.e. til Noregs, má spyrja: Af hverju ættum við að klúðra einhverju svakalega sem Norðmönnum tekst? Nú er þessi löggjöf búin að vera ansi lengi hjá þeim og þar eru 75 þús. manna lífsskoðunarfélag sem gengur ofboðslega vel með.

Það var það sem mig langaði að velta upp til að byrja með.