141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:25]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði reyndar ekki aðalspurningu minni sem var hvort hún vissi hvernig ferlið væri þegar verið væri að meta hvort trúfélög ættu rétt á því að gerast trúfélög og fá stöðu sem slík og sóknargjöld og peninga gegnum ríkið. Ef til vill veit hv. þingmaður það ekki frekar en ég. Þess vegna spurði ég.

Í þessari umræðu finnst mér fólk ræða ansi mikið um fjármuni, sóknargjöld o.fl., en ekki nógu mikið um mannréttindi. Við erum að tala um frumvarp til laga sem Mannréttindaskrifstofa Íslands fagnar sérstaklega og segir, svo ég fái að vitna beint í umsögn, með leyfi forseta:

„Mannréttindaskrifstofan fagnar því sérstaklega að gert er ráð fyrir því að við skráningu lífsskoðunarfélags öðlast það rétt til sóknargjalda fyrir skráða meðlimi félagsins, enda styrkir það og eflir félögin í sínu starfi.“

Þegar við horfum til slíkra álita skil ég ekki hvaðan þessi hræðsla um aðför að kristni og kristinni menningararfleifð okkar kemur. Ég hef ekkert á móti hvaða trúarbrögðum sem er eða fólki sem ekki stundar nokkurs konar trúarbrögð eða ekki þannig að þau skipi stóran sess í lífi þess. Það er ekki beinlínis málið í þessu frumvarpi heldur að jafna stöðu og eyða misrétti sem hefur verið í ansi mörg ár. Með því erum við ekki að reyna að gera lítið úr eða vanvirða trúarbrögð, lífsgildi eða skoðanir einstakra hópa, a.m.k. ekki ég.