141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir það sem hv. þingmaður segir um þessi kristilegu gildi. Ég held að við getum öll í þessum sal skrifað undir að þau skipta mjög miklu máli í siðuðu samfélagi, engir fyrirvarar við þau nema síður sé.

Ég ítreka að við nefnum það sérstaklega í áliti meiri hlutans, og margoft kom það fram í umfjöllun um þetta mál, að við styðjumst við þau meginsjónarmið sem lágu til grundvallar þessu frumvarpi, að kirkjan haldi tekjustofnum sínum óskertum. Það er enginn staður fyrir því í frumvarpinu sjálfu að eitthvað annað standi til. Það er því byggt á einhvers konar persónulegu mati þeirra sem rita umsögn fjárlagaskrifstofunnar að þau framlög sem muni renna til lífsskoðunarfélaga verði tekin í gegnum skerðingu á sóknargjöldunum. Það er ekki tilgangurinn með þessu frumvarpi og þess sér hvergi stað í frumvarpinu. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í heiðri. Auðvitað er það hluti af leiðinni til að ná sátt um þetta fyrirkomulag sem byggir á því að skapa jafna stöðu, jafnrétti, að það að lyfta réttindum lífsskoðunarfélaga sé ekki á kostnað skráðra trúfélaga. Þá væri grundvellinum auðvitað kippt undan einum megintilgangi þessa frumvarps.