141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér í dag hefur fengið ágæta umræðu í þingsal og ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að ég lít á frumvarpið og tilgang þess fyrst og fremst sem mannréttindamál, þ.e. tryggja með þeim ráðum sem við höfum að skoðanir fólks, trú eða hvað menn kjósa að kalla það njóti sömu stöðu gagnvart löggjafanum. Ég tek því undir nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég deili að nokkru leyti skoðunum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á þessu máli í heild, til að mynda því að þegar við tökum svona skref eigum við að stíga varlega til jarðar. Öfugt við það sem hv. þingmanni þykir hins vegar um málið finnst mér það hafa verið gert. Ég hef til að mynda ekki stórar áhyggjur af því að við séum að skerða framlög til þeirra trúfélaga sem fyrir eru. Ef svo er að einhverju leyti er það væntanlega vegna þess að þeir sem í hlut eiga og tilheyra lífsskoðunarfélögum fremur en trúfélögum hafa valið það sjálfir. Það hlýtur að vera sá vilji sem þingið á að fara eftir. Hverju við trúum og hvernig við viljum haga trú okkar hlýtur alltaf að vera afar persónulegt mál og í rauninni eru það í mínum huga fyrst og fremst mannréttindi að fá að ráða sinni trú og lífsskoðun, svo framarlega sem hún níðist ekki á lífsskoðunum og sjónarmiðum annarra. Mér þykir hafa tekist ágætlega til hvað þetta varðar í frumvarpinu og get því stutt það heils hugar.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan, íslenskt samfélag hefur í gegnum tíðina grundvallast á kristnum gildum. Við skulum samt ekki gleyma því að sambærileg gildi og siðferðileg sjónarmið eru eldri en kristin trú og voru komin fram nokkru áður. Kristin trú hefur að því leyti til ekki neinn einkarétt á þeirri siðferðiskennd, skulum við segja. Ég er kristinn og ætla að vera það áfram en það er mitt persónulega mál, það er mín tilfinning og í rauninni sjónarmið sem eru mín mannréttindi að hafa. Það er mín trú og ég ætla að halda því áfram en það breytir ekki því að það gefur mér alls ekki þann rétt að hugsa sem svo að þar með megi mannréttindi einhverra annarra vera sett skör lægra.

Því styð ég þetta frumvarp, frú forseti, og lít á það sem skref í mannréttindabaráttu.