141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar athyglisverðu spurningar. Ég svara þeirri síðari fyrst. Það er ekki um slíkar upphæðir að ræða að þær hvetji endilega til að menn reyni að hafa ríkissjóð að féþúfu. En það er að sjálfsögðu þannig að þegar söfnuður er farinn að telja einhverjar þúsundir félaga þá geta það verið svolitlar upphæðir, það er alveg ljóst.

Varðandi fyrri spurninguna um andann gagnvart þjóðkirkjunni þá ætla ég að nefna tvö dæmi. Það hafa stundum verið átök um það við setningu Alþingis hvort að ganga eigi til kirkju. Ég hef ekki túlkað það öðruvísi en að hér séu ákveðnir aðilar innan þings sem líti á það sem einhvers konar óþarfa, að kirkjan skipi engan sess í hefðbundinni þingsetningu okkar. Ég ætla mér ekki að fara neitt nánar út í það.

Annað mál sem mig langar að nefna við hv. þingmann. Það voru svo ótrúlegir útúrsnúningar og ég ætla að leyfa mér að segja ósvífni sem kom fram hér þegar þjóðkirkjan lýsti því yfir að hún vildi ganga fram fyrir skjöldu í söfnun fyrir tækjakaupum fyrir Landspítala Íslands. Hvers konar viðbrögð komu þá frá stjórnarliðum? Mér finnst það gersamlega út í hött hvernig menn brugðust við, að dylgja eða segja að kirkjan hefði einhver annarleg sjónarmið eða hvað það var sem menn sögðu. Það var mjög skrýtið að lesa það sem hv. þingmenn létu frá sér og það er sá andi sem ég er að tala um þegar ég nefni þetta.

Svo hlýtur að vera umhugsunarefni að ekki skuli staðið við þá samninga sem gerðir hafa verið við kirkjuna varðandi það að greiða gjöld. Það er eflaust lengri saga sem kemur þessu ekki akkúrat við en það er hins vegar ekki góð saga.