141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, frumvarp sem gengur fyrst og fremst út á jafnrétti eins og ég hef nefnt í þessari umræðu. Ég vil þakka öllum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra og tek því vel sem kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki málið til sín milli 2. og 3. umr. og fari í gegnum ýmis þau atriði sem hér hafa komið fram. Fullt tilefni er til að skoða betur þær skilgreiningar á lífsskoðunarfélögum sem eru í lögunum. Hægt er að skerpa á þeim skilningi sem kemur þar fram til að eyða óvissu, ef hún er til staðar í hugum einhverra, um það hvar mörkin liggja á milli lífsskoðunarfélaga sem eigi að fá þau réttindi og skyldur sem um ræðir í frumvarpinu og annarra sem kunna að vera að reyna að banka á dyrnar fyrst og fremst til þess að sækja sér fé í jafnvel annarlegum tilgangi. Auðvitað viljum við koma í veg fyrir það þó að hér sé kannski ekki tilefni til að ætla að miklir fjármunir séu undir.

Það kemur fram í frumvarpinu að hverjir 100 nýir félagar í lífsskoðunarfélagi muni kosta ríkissjóð í kringum 800 þús. kr. á ári. Það mun ekki duga til að setja ríkissjóð á hliðina en sjálfsagt er að fara vel yfir þessar skilgreiningar þannig að vel sé fyrir því séð að mörkin séu eins skýr og kostur er.

Einnig er ýmislegt sem hefur komið fram í umræðunni sem tengist 9. gr. sem ég tel gott að við fáum tækifæri til að fara betur yfir í nefndinni. Ég læt máli mínu lokið um þetta, en þakka aftur fyrir umræðuna og vona að við náum á endanum góðri sátt um þetta mál sem hefur göfugan tilgang.