141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[18:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu. Þó að mér sé fullkunnugt um að hann sat ekki í nefndinni þegar þetta var afgreitt þar sem hann er nýtekinn við sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar — og óska ég honum til hamingju með það — ætla ég engu að síður að spyrja hann tveggja spurninga.

Fyrst ætla ég koma með eina ábendingu sem auðvitað verður farið yfir á milli 2. og 3. umr. í nefndinni. Hún er sú að gildistaka laganna er sögð 1. janúar 2013 sem er tæknilegt atriði en ágætt að skoða það samt.

Það sem hv. þingmaður rakti mjög vel áðan í yfirferð sinni á nefndarálitinu og kemur mjög vel fram eru áhyggjur umsagnaraðila, þ.e. þessara þriggja nefnda, rannsóknarnefndar sjóslysa, umferðarslysa og flugslysa, um að sameiningin kunni að koma niður á faglegum þáttum rannsóknanna. Ítarlega er fjallað um þetta í nefndarálitinu en það sem stingur dálítið í stúf að mínu viti, og ég tel að það hafi líka gerst á fundum hv. nefndar, er að gagnstæð sjónarmið komu af hálfu ráðuneytisins. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því, þ.e. ég met það einhvern veginn þannig, að þeir sem stýra rannsóknarnefndunum, sitja í þeim og sinna slysarannsóknum sem hafa verið í mjög góðum farvegi, og ættu að hafa betri yfirsýn en þeir sem starfa í ráðuneytinu hafa áhyggjur af faglegri stöðu nefndanna eftir þessa sameiningu. Tekur hv. þingmaður ekki undir það með mér að mikilvægt sé að fara betur yfir það milli 2. og 3. umr.?