141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni spurningarnar. Vissulega þarf að endurskoða dagsetninguna fyrir gildistöku laganna sem kemur fram í frumvarpsgreininni. Það er ekki plagsiður á Íslandi að lög gildi afturvirkt og hefur alla vega ekki verið þannig að ég tek undir það með þingmanninum að við þurfum að leiðrétta þetta.

Varðandi síðan þau sjónarmið sem koma fram hjá honum þá eru þessar áhyggjur í rauninni alltaf eðlilegar af hálfu þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þeir hugsa sem svo: Hverjum ber að stýra starfinu í þinginu, framkvæmdarvaldinu eða löggjafarvaldinu? Í hugum þingmanna á löggjafarvaldið náttúrlega að ráða. Hins vegar, eins og hv. þingmaður þekkir, er sú þekking og reynsla sem hefur byggst upp í ráðuneytum á löngum tíma og sú vinnuhefð sem hefur skapast á Íslandi við grunnvinnuna í frumvarpagerð að stórum hluta ráðuneytanna. Með þeirri aðferð sem við notum hefur skapast þekking í ráðuneytinu sem er ekki endilega á hverjum tíma í þinginu. Ég veit að í tilviki hv. þingmanns á þetta ekki við vegna þess að ég geri ráð fyrir að hann hafi ágæta þekkingu á þessum málaflokki og þykist raunar vita það. En það breytir ekki því að ég held að ágætt væri að taka einn snúning í viðbót og ræða þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifar hér og hefur áhyggjur af á milli 2. og 3. umr. eins og þingmaðurinn nefnir og ég tek undir það með honum.