141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

fjárfestingar í atvinnulífinu.

[13:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við því hefur verið varað allnokkrum sinnum að það væri hættulegt að byggja efnahagsstefnu á því að auka hér einkaneyslu og að hagvöxturinn yrði einkum og sér í lagi drifinn áfram af aukinni einkaneyslu á meðan fyrir lægi að fjárfestingar í atvinnulífinu væru í lágmarki. Fyrr eða síðar kæmi að því að það drægi úr vexti einkaneyslunnar með þá tilhlýðilegum áhrifum á hagvöxtinn. Nú virðist vera að koma fram í hagtölum að í þetta stefnir.

Og verra virðist líka liggja í hagtölunum, að það sé að draga úr innflutningi á fjárfestingarvörum, þannig að það er ekki ástæða til að ætla að fjárfestingarnar muni taka myndarlega við sér. Nú er liðinn langur tími þar sem fjárfestingarnar í íslensku atvinnulífi hafa verið allt of lágar. Það er áhyggjuefni að einkaneyslan vaxi ekki, fjárfestingarnar vaxi allt of hægt, uppsöfnuð fjárfestingarþörf í raun og veru, og nú er svo komið að aðilar vinnumarkaðarins hafa lýst því yfir að þeir hafi ekkert við ríkisstjórnina að tala, fara fram sjálfir með sína eigin efnahagsstefnu og stytta samninginn sem milli þeirra ríkir.

Spurning mín er þessi, virðulegi forseti: Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu? Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að mæta þessari þróun? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að auka fjárfestingar fyrirtækjanna á Íslandi?

Ég veit að það er stutt í kosningar (Forseti hringir.) og ekki langt eftir af líftíma þessarar ríkisstjórnar. Það breytir þó ekki því að hún situr núna, hún verður að bera ábyrgðina og hún verður að grípa til aðgerða.