141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

fjárfestingar í atvinnulífinu.

[13:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Efnahagslega umgjörð, sagði hæstv. ráðherra. Það dregur úr fjárfestingum þegar stanslaust er farið fram með árásir á einn grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, þar sem fjárfestingarnar eru hvað mestar. Óvissan hefur staðið nær allt þetta kjörtímabil um hvert yrði framtíðarskipulag þess atvinnuvegar. Eitt er gjaldtakan, annað er sjálft skipulagið og hér hafa hæstv. ráðherrar boðað það trekk í trekk að þeir kæmu fram með hinar og þessar hugmyndir.

Það mistókst að ná sátt um rammaáætlun. Það mistókst að ná sátt um orkunýtinguna. Það hefur verið farið fram með alveg glórulausum hætti í skattamálum þessarar þjóðar, skattahækkanir boðaðar á meðal annars einn atvinnuveginn, ferðaþjónustuna, og síðan dregið í land. Skattar voru boðaðir á orkufrekan iðnað og síðan dregið í land.

Og hver er niðurstaðan? Óvissa. Það er endalaust verið að senda sömu skilaboðin til þeirra sem eru að fjárfesta (Forseti hringir.) í þessu landi: Þið getið ekki treyst því hvað stjórnvöld gera í skattamálum og skipulagsmálum.

Þessu verður að linna. Umgjörð efnahagsstefnunnar verður að vera stöðugleiki og vissa.