141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands.

[13:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður tekur undir þau sjónarmið að þetta geti verið leið til að halda báðum þessum mikilvægu hagsmunum til haga, þ.e. réttindum hreyfihamlaðra til að njóta náttúrunnar og hins vegar rétti náttúrunnar til að njóta verndar.

Það er hins vegar önnur umræða og lengri að því er varðar almannaréttinn. Ég vil minna hv. þingmann á það, og við ræddum það hér aðeins þegar ég mælti fyrir frumvarpi til nýrra náttúruverndarlaga, að mikilvægasta viðfangsefni náttúruverndarlaga er auðvitað náttúruverndin sem slík. Hins vegar þarf alltaf við umferð í náttúru Íslands að gæta þess að ekki sé gengið á þá hina sömu náttúru. Það kann að vera stundum með takmörkunum eða með því sem ég vil nú bara kalla umferðarreglur, sem ættu að vera til bóta. Ég vænti þess að við meðferð nýrra náttúruverndarlaga getum við átt uppbyggilegt og málefnalegt samráð og samræðu við þá sem fara um náttúru Íslands á vélknúnum ökutækjum vegna þess að ég tel (Forseti hringir.) að við séum sammála því að meginmarkmiðið sé náttúruvernd. Ég treysti umhverfis- og samgöngunefnd til að fjalla um þetta á málefnalegum nótum.