141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

afnám verðtryggingar.

[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé margt í tillögum Framsóknarflokksins sem hægt er og vert er að skoða og er kannski ekkert fjarri þeim hugmyndum sem við í Samfylkingunni höfum haft. Ég tel algerlega óábyrgt af hverjum stjórnmálamanni að útiloka fyrir fram einhverjar tillögur sem lagðar eru fram þannig að ég er vel til umræðu um það hvernig við getum bætt stöðu íslenskra skuldara og íslenskra heimila til skemmri tíma. En til lengri tíma verðum við og allir flokkar á þingi að fara að skila einhverjum tillögum og hugmyndum um það hvernig við ætlum að koma gjaldmiðlinum okkar fyrir. Þar eru framsóknarmenn ekki undanskildir. Hver einasti flokkur hér inni skuldar þjóðinni það að svara því í næstu kosningum hvaða tillögur menn hafa til lengri tíma um gjaldmiðilinn okkar vegna þess að sveiflurnar sem íslensk heimili búa við og óvissan þegar kemur að lánum þeirra er í grunninn vegna stöðu krónunnar og vegna þess að við erum með gjaldmiðil (Forseti hringir.) sem sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni að tryggja lífskjör í landinu.

Virðulegi forseti. Hver einasti flokkur á þingi hefur hingað til skilað auðu nema Samfylkingin í þessum efnum (Forseti hringir.) og ég kalla eftir því að við eigum samtal um þetta í aðdraganda kosninga.