141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

opinber störf á landsbyggðinni.

[14:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hann vilji efla starfsemi sýslumannsembættanna á landsbyggðinni. Það er út af fyrir sig skoðun sem ég get mjög vel tekið undir með hæstv. ráðherra.

Það sem ég var hins vegar að fiska eftir var að ákvæði í 97. gr. sveitarstjórnarlaganna kveður bókstaflega á um að ráðuneyti og opinberar stofnanir skuli leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka sveitarfélaganna þegar teknar eru ákvarðanir sem varða sérstaklega viðkomandi landsvæði.

Ég vitnaði til þess að nú hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða, niðurskurðar á framlögum til einstakra stofnana og menn geta deilt um það, en málið snýst um það. Málið snýst um hvort hæstv. ríkisstjórn, ráðuneyti, hæstv. ráðherrar hafi haft um það lögbundið samráð við landshlutasamtökin áður en ákvarðanir voru teknar. Ég vísaði til Skagafjarðar þar sem búið er að fækka opinberum störfum um 50 eða 60 frá árinu 2008, þar sem búið er að fækka um 33, 28% bara á heilbrigðisstofnuninni. (Forseti hringir.) Ég spyr: Var þessa lögbundna formlega samráðs gætt? Hefur hæstv. ráðherra sem ráðherra sveitarstjórnarmála ekki í hyggju að fylgja því eftir í ljósi þeirra erinda sem borist hafa um þessi mál?