141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér endurbætur á lagaramma lífeyrissjóðanna. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þær smávægilegu breytingar sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til á þeim lagaramma, ekki síst í ljósi þess að nú hefur komið í ljós að bókfært tap lífeyrissjóðanna er komið upp í 520 milljarða. Þetta eru peningar sem hefðu annars farið í lífeyrisgreiðslur fólksins í landinu. Við höfum nú, sérstaklega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, verið að draga lappirnar varðandi skyldu lífeyrissjóðanna til að endurútreikna lífeyrisréttindi eða með öðrum orðum að lækka lífeyrisréttindi núverandi lífeyrisþega í samræmi við tapið. Það mun fljótt koma að skuldadögum og við höfum lært af þessu hruni að lífeyrissjóðir eru ekki óbreytanlegir heldur geta eignir þeirra tapast og rýrnað ansi mikið, ekki síst í landi þar sem þeir eru margfalt stærri en hagkerfið. Lífeyrissjóðirnir eru nú um 140% af stærð hagkerfisins.

Ég velti því mér hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að lífeyrissjóðirnir séu orðnir of stórir fyrir íslenskt hagkerfi og þar af leiðandi of áhættusamir sem söfnunarsjóðir lífeyrisréttinda. Ég velti því líka fyrir mér hvort við þurfum að taka upp blandað lífeyrissjóðskerfi eins og er á Norðurlöndunum þar sem meira jafnvægi er á milli sjóðsmyndunarkerfisins og almannatryggingakerfisins en er hér.