141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[15:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum misvel í stakk búin líkamlega til þess að eldast og ég er ekki sammála hv. þingmanni um það að við eigum að hækka ellilífeyrisaldurinn eða aldursmörkin til töku lífeyris heldur eigum við fyrst og fremst að tryggja að fólk geti, kjósi það sjálft, haldið áfram að vinna. Við eigum ekki að byggja kerfið á því að hér vinni allir fram í rauðan dauðann, þetta á fyrst og fremst að vera val.

Varðandi það hvað gerist þegar lífeyrissjóðirnir fara að greiða út meiri lífeyri en sem nemur iðgjaldagreiðslum er kannski réttara að tala um að arðsemi fjárfestinga dragist saman vegna þess að eignaverð lækkar verulega. Eignaverðið lækkar vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru að selja miklar eignir. Þetta eru áhrif sem mjög fáir hagfræðingar hafa metið og það væri mjög áhugavert að skoða hvort rétt sé að gera ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður, að ekki verði til neinn nýr sparnaður eins og til dæmis sparnaður hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri. Reyndar er það þannig að í flestum tilfellum getur fólk farið að spara þegar það hættir vinnu vegna þess að það hefur ekki þann kostnað sem aðrir hafa af því að vera í vinnu.