141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[15:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandamálið við fjármálamarkaðinn er að hann er fákeppnismarkaður þannig að eftirspurn og framboð stýra ekki vöxtum á sama hátt og þegar fullkomin samkeppni ríkir. Við sáum til dæmis eftir hrun að hér var lítil sem engin eftirspurn eftir lánsfé en samt settum við Evrópumet í vaxtastigi. Það var ekki síst vegna þess að það var eitthvert annað markmið sem stýrði vöxtunum en að tryggja jafnvægi eftirspurnar og framboðs. Þess vegna segi ég að það er mjög mikilvægt að skoða og búa til módel yfir það hvað gerist nákvæmlega þegar lífeyrissjóðir, sem eru 140% af stærð hagkerfisins, fara að selja eignir sínar og það verður ekki lengur eftirspurn eftir verðbréfum og skuldabréfum sambærileg við þá sem við höfum séð á undanförnum árum. (Gripið fram í.)

Ég veit að þessi tenging milli eignaverðs og vaxta á við þegar um er að ræða fullkomna markaði, en fullkominn markaður á ekki við um fjármálamarkað, það er vandamálið.