141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

420. mál
[15:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um svokallaðar öryggisráðstafanir, en með því er átt við úrræði vegna þeirra sem framið hafa afbrot en ekki er unnt að beita refsingu einhverra hluta vegna, sem og þeirra sem fylgjast þar með eftir að afplánun lýkur. Kveðið er á um þessar ráðstafanir í 62. og 67. gr. almennra hegningarlaga.

Með frumvarpinu eru ákvæði gildandi laga færð í nútímalegra horf og þau aðlöguð að þeim úrræðum sem unnt er að grípa til í dag. Þá er samspil einstakra úrræða og skilyrði fyrir beitingu þeirra skilgreint betur þannig að skýrt sé við hvaða aðstæður heimilt sé að beita úrræðum á borð við þvingaða vistun á stofnun og hvenær beita megi vægari úrræðum, svo sem rafrænu eftirliti, lyfjameðferð eða áfengis- og vímuefnameðferð. Þá er kveðið skýrara á um hvernig ábyrgð stjórnvalda og fullnustu dóma um öryggisráðstafanir er háttað.

Í 62. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um öryggisráðstafanir sem felast annars vegar í vistun á viðeigandi hæli þar sem viðkomandi hlýtur meðferð við hæfi og hins vegar öðrum vægari úrræðum svo sem tryggingu, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða sviptingu lögræðis. Þessi úrræði 62. gr. eiga við um þá sem eru sýknaðir vegna sakhæfisskorts samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga eða ef niðurstaða dómstóls er sú að refsing sé árangurslaus samkvæmt 16. gr. laganna.

Skilyrði fyrir því að þessum úrræðum sé beitt er að nauðsynlegt sé, vegna réttaröryggis, að gera ráðstafanir til að varna því að háski verði af viðkomandi einstaklingi. Samkvæmt 15. gr. laganna eru þeir einstaklingar taldir ósakhæfir sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir um að stjórna gjörðum sínum á þeim tíma sem þeir frömdu hinn refsiverða verknað.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga skal ekki refsa manni fyrir afbrot hafi hann verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand er ekki á eins háu stigi og getur í 15. gr., nema ætla megi eftir atvikum og leitað hefur verið læknisumsagnar að refsing geti borið árangur.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalag 62. gr. verði fært til nútímalegra horfs sem og þau úrræði sem unnt er að grípa til svo varna megi frekari afbrotum viðkomandi. Er þar meðal annars lagt til að unnt verði að beita rafrænu eftirliti og lyfjameðferð sem og vistun á geðdeild eða viðeigandi heimili eða stofnun. Þá er lagt til að heimild til lögræðissviptingar verði afnumin enda hefur hún almennt ekki verið notuð við úrlausn mála á grundvelli 62. gr. Heimild til lögræðissviptingar er hins vegar að finna í lögræðislögum.

Í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli þar sem kveðið er á um þau atriði sem dómara ber að líta til við mat á því hvort dæma skuli mann til að sæta öryggisráðstöfunum og við val á þeim. Er þar tekið fram að einkum skuli líta til eðlis brots og sjúkdómsástands brotamanns og að vistun á geðdeild eða viðeigandi heimili eða stofnun verði að jafnaði ekki beitt nema ætla megi að lífi, heilsu eða frelsi annarra þyki hætta búin og nauðsynlegt þyki að fyrirbyggja þá hættu.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að lögfestar verði reglur um tímalengd öryggisráðstafana. Hingað til hafa öryggisráðstafanir sem ákveðnar hafa verið með dómi verið ótímabundnar án tillits til eðlis hins refsiverða verknaðar. Í ákvæðinu er lagt til að ákvörðun um hvort öryggisráðstafanir séu tímabundnar eða ótímabundnar ráðist bæði af eðli hins refsiverða verknaðar og eðli þeirra ráðstafana sem viðkomandi er gert að sæta. Gert er ráð fyrir að vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skuli vera ótímabundin þegar viðkomandi hefur gerst sekur um alvarleg brot eins og manndráp, rán, frelsissviptingu, nauðgun eða alvarlegt kynferðisbrot, en þau brot sem um ræðir eru tæmandi talin í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Hafi einstaklingur gerst sekur um önnur brot en þar eru talin upp eða ákveðið sé að beita öðrum ráðstöfunum en vistun er gert ráð fyrir að ráðstafanir séu tímabundnar. Skal hámarkstími almennt ekki vera lengri en fimm ár en þó er gert ráð fyrir að dómstóll geti í sérstökum tilvikum framlengt þennan tíma um tvö ár.

Í 66. gr. almennra hegningarlaga er fjallað um ráðstafanir gagnvart þeim sem heitist við annan mann eða hótar honum bana, brennu eða öðrum óförum. Skilyrði fyrir beitingu úrræða samkvæmt ákvæðinu er að refsingu verði ekki við komið, t.d. vegna þess að hótunin sé í sjálfu sér ekki refsiverð eða refsing veiti ekki næga tryggingu. Er gert ráð fyrir að ákæruvaldið geti, ef það þykir nauðsynlegt vegna réttaröryggis, krafist dómsúrskurðar um hvort gera skuli ráðstafanir til varnar því að hótunin sé framkvæmd, þar á meðal hvort setja skuli heitingarmann í gæslu.

Í 67. gr. almennra hegningarlaga er að finna ákvæði um öryggisráðstafanir gagnvart vanaafbrotamönnum. Ákvæðið á við um sakhæfa einstaklinga sem dæmdir hafa verið í fangelsi. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að viðkomandi hafi verið dæmdur í fangelsi og mjög sennilegt megi telja af því hvernig glæp hans var háttað og andlegu ástandi hans er varið, að hann muni drýgja afbrot af vana eða í atvinnuskyni og sé því hættulegur umhverfi sínu. Við slíkar aðstæður má ákveða í dómi eða síðar í sérstöku máli að beita skuli öryggisráðstöfunum að refsingu lokinni.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þessara tveggja ákvæða komi ný grein þar sem kveðið er á um öryggisráðstafanir eftir að sakborningur hefur afplánað dóm með fangelsisvist. Með þessari breytingu er orðalag gildandi 67. gr. fært til nútímalegra horfs þannig að það geti orðið raunhæft og virkt úrræði, og ákvæði 66. gr. í raun fellt niður enda er mælt fyrir um úrræði við þeim atvikum sem þar eru tilgreind í ákvæðum laga um meðferð sakamála, meðal annars í heimildum til að beita gæsluvarðhaldi.

Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að sé maður dæmdur í fangelsi fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás, nauðgun eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot og dómur telur verulegar líkur á því í ljósi sakaferils og andlegs ástands dómþola við lok afplánunar, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja ofbeldis- eða kynferðisafbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu megi dómari ákveða í sérstöku máli, sem höfðað er að tilhlutan ákæruvaldsins eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok afplánunar, að beitt skuli öryggisráðstöfunum að lokinni afplánun. Þannig verður ákæruvaldið eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok afplánunar að leggja mat á hvort höfða skuli sérstakt mál þar sem krafist verði að öryggisráðstöfunum verði beitt að afplánun lokinni. Dómari metur þá í framhaldinu hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt og þá hvort beita skuli vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun eða vægari ráðstöfunum á borð við eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun varðandi dvalarstað og vinnu, meðferð vegna áfengis- og/eða vímuefnanotkunar eða geðmeðferð.

Þessi heimild 5. gr. frumvarpsins, eins og gildandi 67. gr. almennra hegningarlaga, felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að maður skuli frjáls ferða sinna eftir að hafa lokið afplánun fangelsisdóms. Á hinn bóginn byggjast þessi ákvæði á því að hagsmunir samfélagsins áskilji að í lögum séu til staðar fullnægjandi heimildir til að bregðast við þeirri hættu sem stafar frá manni sem verulegar líkur eru á að muni fremja alvarleg brot þegar að lokinni afplánun. Ljóst er að sú byrði hvílir á ákæruvaldinu að sýna dómara fram á að skilyrði til öryggisráðstafana séu fyrir hendi. Heimildin á fyrst og fremst við í alvarlegum tilvikum og ekki er sjálfgefið að ástæða sé til að beita öryggisráðstöfunum í formi vistunar á geðdeild eða stofnun. Nægjanlegt kann að vera að beita vægari ráðstöfunum á borð við eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun um dvalarstað og læknisfræðilega meðferð. Sem dæmi má nefna að þegar maður hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum og verulegar líkur eru taldar á því að hann muni fremja slík brot að nýju að lokinni afplánun kæmi til greina að mæla fyrir um rafrænt eftirlit þannig að unnt sé að fylgjast með ferðum hans og honum yrði bannað að koma nálægt stöðum þar sem börn halda til.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um skyldur og hlutverk Fangelsismálastofnunar og velferðarráðuneytisins. Er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á þeim valdmörkum sem nú gilda en rétt þykir að kveða á um ábyrgð þessara aðila í lögum.

Þá er í 6. gr. frumvarpsins kveðið á um skyldu til að skipa þeim sem dæmdir eru til að sæta vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun, tilsjónarmann sem fylgist með ástandi viðkomandi og að vistun vari ekki lengur en nauðsynlegt er og ráðherra veitt heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um tilsjónarmann. Um slíkan tilsjónarmann er nú kveðið á um í 62. gr. laganna.

Þá er lagt til í 7. gr. frumvarpsins að ákæruvaldið gæti þess að öryggisráðstafanirnar vari ekki lengur en nauðsyn krefur. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Þá er í sömu grein kveðið á um hverjir geti farið fram á að ráðstöfunum sé breytt eða þær felldar niður. Er hér um rýmri reglur að ræða heldur en í gildandi lögum.

Ákvæði þessa kafla almennra hegningarlaga hafa að ýmsu leyti staðið óbreytt í rúmlega 70 ár. Endurskoðun á ákvæðunum er því löngu tímabær, ekki síst með tilliti til sjónarmiða um mannréttindavernd ósakhæfra manna. Þá er einnig nauðsynlegt að kveða skýrt á um heimildir til beitingar öryggisráðstafana gagnvart þeim sem sakhæfir eru og afplánað hafa dóma sína en eru hættulegir umhverfi sínu.

Ég hef hér gert grein fyrir helstu ákvæðum frumvarpsins. Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.