141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

420. mál
[15:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fá að tipla á nokkrum atriðum varðandi þetta mál sem ég tel vera frekar merkilegt. Þetta eru ekki mjög margar greinar, þetta eru níu greinar, fjalla um ansi flókið mál. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra fjallar það um það hvernig beita eigi svokölluðum öryggisráðstöfunum í almennum hegningarlögum. Eins og ég skil það, og fram kom í máli hæstv. ráðherra, er verið að reyna að færa þetta til nútímahorfs og réttarfarsnefnd samdi greinarnar sem eru í frumvarpinu. Við sem fáum þetta til okkar í allsherjar- og menntamálanefnd þurfum auðvitað að fara vel yfir það, en ég skil það alla vega svo að að einhverju leyti sé verið að skipta þessum öryggisráðstöfunum í tvennt. Þær hafa reyndar verið í þeim farvegi en verið er að setja tímabundna fresti á öryggisráðstöfunum. Í 3. gr. kemur fram að þegar þeir sem fremja afbrot og lenda í því að vera vistaðir á geðdeild eða á viðeigandi heimili eða stofnun, samkvæmt 2. mgr. 62. gr., skal sú ráðstöfun vera ótímabundin við ákveðin skilyrði, þ.e. endalaus, þegar viðkomandi hefur gerst sekur um manndráp, rán, frelsissviptingu, alvarlega líkamsárás, brennu, nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot eða fyrir tilraun eða hlutdeild til þessara brota.

Það hljómar mjög illa að vera dæmdur í ótímabundna vistun en það er ekki alveg þannig. Þegar ég lít nánar á þessi ákvæði skil ég það þannig — ofarlega í 7. gr. segir:

„Nú er vistun ótímabundin og leitar ákæruvaldið þá úrskurðar dómstóls eigi síðar en fimm árum eftir uppkvaðningu dóms um hvort vistunin teljist lengur nauðsynleg eða hvort beita skuli vægari ráðstöfunum í stað vistunar. Slíkt skal þó ekki gert hafi úrskurðar verið krafist innan síðustu tveggja ára. Síðan skal leita úrskurðar dómstóls að minnsta kosti á tveggja ára fresti.“

Þá fer í gang einhvers konar ferli þannig að á tveggja ára fresti skoða menn hvort ástæða sé til að halda viðkomandi áfram í þessu úrræði, af því að hlutirnir geta skánað þannig að hægt væri að sleppa viðkomandi eða breyta ráðstöfununum í rafrænt eftirlit eða að viðkomandi verði að halda sig á ákveðnum svæðum eða í einhvers konar léttari úrræði. Ég skil það því svo að í þessum alvarlegustu tilvikum, þó að menn séu dæmdir í ótímabundna vistun, sé það alltaf tekið upp eftir fimm ár að minnsta kosti og síðan á tveggja ára fresti eftir það.

Ég skil það líka þannig að við annað skilyrði geti hámarksrefsing eða hámarksúrræði varað mest í sjö ár. Neðarlega í 3. gr. segir: „Þegar ákveðið er að vista mann sem framið hefur önnur brot en greinir í 1. mgr.“ — Ég ætla að skjóta því inn hér að önnur brot en hin brotin, þessi alvarlegu, þ.e. manndráp, rán, frelsissvipting, alvarleg líkamsárás, brenna, nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot eða tilraun eða hlutdeild til þessara brota; sem sagt við önnur og þá væntanlega vægari brot en þau sem ég taldi upp núna: „skal hámarkstími ráðstafana ekki vera lengri en fimm ár.“ Þá eru það sem sagt fimm ár mest.

Svo segir:

„Að kröfu ákæruvalds getur dómstóll í sérstökum tilvikum framlengt þennan tíma um tvö ár.“

Sem sagt fimm ár plús tvö ár, mest sjö ár. Það er ekkert sagt að það megi gera þetta aftur og aftur. Ég skil það því svo að samkvæmt 3. gr. séu það þessi þyngstu mál eða þessi alvarlegustu brot, þar sem menn eru dæmdir og þeir geta verið ósakhæfir, þar sem hægt er að halda þeim mjög lengi inni ef þörf er á, bæði vegna þeirra sjálfra, þeir séu sjálfum sér hættulegir, eða vegna umhverfis síns, það þurfi að halda þeim lengi inni. En við þessi aðeins vægari brot, þó mjög alvarleg, sé hámarkstími sjö ár og eftir það fari þeir út úr úrræðinu.

Mér finnst þetta góð nálgun. Ég sé að hér er verið að velja svokallaða danska leið og mér skilst af greinargerðinni að Norðmenn hafi þetta aðeins öðruvísi. Þar eru þetta úrræði sem vara í lengri tíma, hámarkstími skal almennt ekki vera lengri en 15 ár og aldrei lengri en 21 ár o.s.frv. þannig að mér finnst þetta athyglisvert.

Ég held að talsverð vinna felist í þessu máli og er að reyna að skoða það með sérfræðingum til að skilja það til fullnustu. Ég sé að hér er líka verið að taka á kynferðisafbrotum gegn börnum og barnagirnd á háu stigi, hvernig taka eigi á því, það er að einhverju leyti kveikjan að því að farið var í að semja þetta frumvarp, þetta er að einhverju leyti svar við því.

Mér finnst líka mjög merkilegt að lesa greinargerðina með þessu máli, í fylgiskjali 1 á bls. 17 er svokölluð dómaframkvæmd um beitingu 62.–67. gr. almennra hegningarlaga sem gilda í dag. Þetta eru mjög margir dómar, frá bls. 17–33, þar eru dæmi um dóma í flóknum málum af þessu tagi, þ.e. hvenær eru skilyrði til að dæma mann ósakhæfan og hvenær ekki. Hvenær hefur viðkomandi brotið svo alvarlega af sér að taka þarf hann úr umferð með því að láta hann sæta svokölluðum öryggisráðstöfunum og dæma hann til vistunar á því sem áður hét hæli en heitir nú samkvæmt þessu frumvarpi geðdeild, heimili, það eru notuð önnur nýtískulegri orð.

Það er þyngra en tárum taki að lesa þetta og ég ætla ekki gera það hérna, ég ætla ekki að taka dæmi. Ég hafði hugsað mér að taka dæmi, eitt um karlmann sem braut af sér og annað um konu sem braut af sér en ég ætla ekki að gera það. En maður sér bara, þegar maður les þetta, hvað þetta geta orðið ótrúlega þung mál og hvað frelsissvipting er, eins og allir vita, alvarleg. Ég vil benda á varðandi þetta mál í heild, af því að ég ætla ekki að tala lengi, að á bls. 14 kemur kjarninn í þessu máli svolítið fram.

Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst að heimild 5. gr. frumvarpsins, eins og gildandi 67. gr. hegningarlaga, felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að maður skuli frjáls ferða sinna eftir að hafa lokið afplánun fangelsisdóms. Á hinn bóginn byggjast þessi ákvæði á því að hagsmunir samfélagsins áskilji að í lögum séu til staðar fullnægjandi heimildir til að bregðast með raunhæfum og virkum hætti við þeirri hættu sem stafar frá manni sem verulegar líkur eru á að muni fremja alvarleg brot þegar að lokinni afplánun í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um sakaferil hans og andlegt ástand við lok afplánunar.“

Hér er bæði verið að viðhalda og skýra betur en gert er í núgildandi lögum við hvaða skilyrði hægt er að halda einstaklingi áfram inni, t.d. í fangelsi, eftir að dómi er fullnægt, eftir að refsing er úttekin. Allir venjulegir aðilar hugsa þessa hugsun kannski ekki alveg til enda. Þú bara færð dóm í x ár, þú framdir lögbrot, refsivert athæfi, þú ert dæmdur í x ár. Svo líður þessi tími og tíminn er útrunninn en þá er samt hægt að halda þér áfram inni af því að það er best fyrir alla, samfélagið og viðkomandi, það er sem sagt mat dóms. Þetta þarf auðvitað allt að vera stutt gríðarlegum gögnum og ég ætla ekkert að fara yfir það, það þarf sálfræðilegt mat, alls kyns vottorð o.s.frv., þannig að mér finnst þetta mjög athyglisvert mál.

Ég hafði líka hugsað mér að spyrja hæstv. ráðherra, og ég get svo sem gert það en á kannski ekkert endilega von á því að hann sé með slík mál í huga varðandi þessa umræðu, en þetta mál vakti mig til umhugsunar um hvenær hægt er að dæma fólk í meðferð, áfengis- og fíkniefnameðferð o.s.frv. Lítillega er fjallað um það í þessu máli en ég hef svolitlar áhyggjur af börnum og unglingum, sérstaklega eftir að hafa kynnt mér starfsemi Stuðla. Ég fór og heimsótti Stuðla, annaðhvort í fyrra eða hittiðfyrra, og í þeirri heimsókn heyrði ég á starfsfólki Stuðla, sem er nú allt framúrskarandi duglegt og að vinna mikla og góða vinnu, hálfgert ákall eftir því að það yrði gert auðveldara frá því sem nú er að dæma ungmenni í meðferð, áfengis- og fíkniefnameðferð. Slíku væri mjög sjaldan beitt í dag og ég held bara eiginlega ekki, og það þyrfti að skoða það mál sérstaklega. Ef ráðherra hefur eitthvað um það að segja væri ágætt að heyra það hér.

Ég ætla ekki að gera neina kröfu um að ráðherrann fari hér aftur í pontu heldur lýsi því yfir að við fyrstu yfirferð held ég að þetta mál horfi til framfara, við erum að velja danska leið — og lýsi mig alla af vilja gerða til að skoða þetta mál með jákvæðum hætti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru erfið mál, leiðinleg, hafa áhrif á marga og hve mikilvægt er að þau séu í góðu lagi.