141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[15:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti heimilað sveitarfélögum, að beiðni þeirra, að íbúakosning samkvæmt X. kafla sveitarstjórnarlaga fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.

Verði frumvarpið að lögum munu sveitarstjórnir hafa um það val hvort íbúakosningar á grundvelli laganna fari fram á hefðbundinn hátt eða eingöngu með rafrænum hætti. Markmið frumvarpsins er tvíþætt, þ.e. annars vegar að efla rafrænt lýðræði og hins vegar að auka lýðræðisþátttöku íbúa. Með frumvarpinu er m.a. komið til móts við tillögu nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins um aukna möguleika á rafrænni framkvæmd í íbúakosningum og stuðning við þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum, en með aukinni tækni hefur krafan um rafrænar kosningar orðið sífellt háværari í samfélaginu. Með þeim væri hægt að ná fram sparnaði og hagræðingu bæði fyrir hið opinbera sem og kjósendur, og erum við þar að tala um hagræðinguna og kjósendur sem skattgreiðendur.

Í X. kafla sveitarstjórnarlaga, sem ber heitið Samráð við íbúa, eru settar eru fram leiðbeinandi reglur um samráð en sveitarstjórnum eftirlátið að meta hvaða leiðir þær vilja fara til þess að virkja þátttöku íbúanna varðandi samráð.

Verði frumvarpið að lögum er sveitarstjórnum skapað svigrúm til þess að meta hvaða leið þeir telja besta til að virkja samráð sitt við íbúa, þ.e. hvort þær vilja halda sig við þá hefðbundnu framkvæmd sem kveðið er á um í X. kafla sveitarstjórnarlaga eða nýta sér heimild frumvarpsins til að íbúakosningar fari eingöngu fram með rafrænum hætti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðuneytið skuli í reglugerð mæla nánar fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár. Gert er ráð fyrir að í slíkri reglugerð sé m.a. fjallað um öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar. Jafnframt er gert ráð fyrir að í reglugerðinni sé mælt fyrir um hlutverk Þjóðskrár Íslands í innleiðingunni, þar á meðal um gerð og umsjón vefsvæðis, auðkenningu, uppflettingu í þjóðskrá og talningu. Þá er sveitarstjórn heimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar við framkvæmd rafrænna íbúakannana eftir því sem við á.

Um tímabundið þróunarverkefni er að ræða sem ætlað er að ná yfir rúmlega fimm ára tímabil, þ.e. frá 1. janúar 2013 til 31. maí 2018. Sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 2014 og mun verkefnið því taka til að minnsta kosti eins heils kjörtímabils. Ráðgert er að á þeim tíma verði byggð upp þekking opinberra aðila á rafrænu lýðræði í sveitarfélögum sem unnt er að nýta til frekari þróunar rafræns samráðs og lýðræðis bæði við stjórnun og ákvarðanatöku í sveitarfélögum sem og á landsvísu. Þá mun verkefnið jafnframt efla traust almennings á rafrænu lýðræði og vera skref í þá átt að greiða fyrir innleiðingu þess hér á landi.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2013 en ljóst er að rafrænar íbúakosningar munu ekki geta hafist fyrr en reglugerð þar að lútandi hefur verið samin og fundin lausn á tæknilegum framkvæmdaatriðum. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra skipi þegar ráðgjafarnefnd sem muni vinna að innleiðingu og undirbúningi verkefnisins og leita eftir sveitarfélögum til að taka þátt í því þróunarverkefni á sviði rafræns lýðræðis í sveitarfélögum sem í frumvarpinu felst.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.