141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[15:43]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að hér er komið fram frumvarp varðandi rafrænar kosningar og rafrænar kjörskrár. Þetta er mál sem lengi hefur verið í umræðu og á döfinni og óhætt er að segja að ákveðið hik hefur verið á stjórnvöldum að fara fram með þetta mál. Ótti við að kerfið og skipulagið sem slík kosning byggi á sé ekki og hafi ekki verið á nægjanlega traustum fótum til þess að fara fram með jafnáhrifamikla breytingu og felur í sér að fara úr því hefðbundna formi sem við höfum haft í kjörskrám yfir í rafræn kjör.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að þetta verkefni sé unnið í nánu og góðu samstarfi við sveitarfélögin vegna þess að þau hafa víða verið að þróa mál í þessar áttir. Við höfum reynslu af því að menn hafa nýtt rafrænar kosningar og rafrænar kjörskrár þar sem íbúakosningar hafa farið fram. Við höfum líka reynslu af því að einstakir stjórnmálaflokkar, til að mynda Samfylkingin, hafa nýtt sér þetta fyrirkomulag mjög, bæði í prófkjörum og í formannskosningu sem nú stendur yfir hjá flokknum.

Reynslan er auðvitað til staðar. Hún hefur í flestum og öllum tilvikum sýnt að þetta hefur gengið vel fyrir sig. Ég minnist þess að stærsta kosning í þessa veru, með þátttöku upp á yfir 90% íbúa, átti sér stað árið 2007 í Hafnarfirði þegar íbúar þar fengu að kjósa um skipulagsmál varðandi fyrirhugaða mögulega stækkun álversins í Straumsvík. Það er alveg ljóst að kostirnir sem felast í því að hafa rafræna kosningu og rafræna kjörskrá eru mjög margir. Það er ekki bara hagræðing og sparnaður, heldur er einfaldari aðkoma og leið fyrir íbúa til þess að kjósa. Það er alveg klárt mál að ef þessi mál fá að þróast í góðri sátt til næstu framtíðar mun það frekar ýta undir heldur en hitt að sveitarfélög nýti sér tækifæri til að fara fram með íbúakosningar um ýmis þau álitamál sem koma upp út af skipulagi, umhverfi og öðrum stærri framkvæmdamálum heima í héraði. Ekki þarf að setja fyrir sig kostnað eða fyrirhöfn eða aðra slíka þætti sem hafa jafnvel talið kjark úr mönnum í því að fara fram með þessa hluti.

Annað atriði finnst mér líka skipta máli í þessu. Á þeim tíma sem hér er horft til sem tilraunatíma, 2013–2018, þ.e. inn á nýtt kjörtímabil sveitarstjórna, er innanríkisráðuneytið og hæstv. ráðherra innanríkismála að kynna fyrir þinginu áhugaverðar og athyglisverðar tillögur sem lúta að persónukjöri. Við fáum vonandi tækifæri til þess að hafa umræðu um það hér í þinginu og umfjöllun í þingnefndum. Þar er verið að stíga mjög stór og áhugaverð skref sem í mínum huga haldast mjög í hendur við þetta fyrirkomulag. Það er grundvöllur og forsendur fyrir því að útfæra það með þessu rafræna formi. Í þeim tillögum sem ég vil gera að umtalsefni er auðvitað gengið út frá því að kjörseðlar og kosningafyrirkomulag sé með allt öðrum hætti en við þekkjum í dag. Tækifæri til að merkja við lista sem menn kjósa og jafnvel aðra lista líka, kjósa fulltrúa af sínum lista og öðrum listum persónukjöri. Í þeirri venjubundnu framkvæmd sem við þekkjum í kosningum og talningu væri um mjög flókið, viðamikið og tímafrekt verkefni að ræða, að ætla að vinna það allt í höndum.

Með því að vera með samhliða tengingu á því að fara fram með rafræna kjörskrár og kosningar og þær útfærslur og hugmyndir sem eru núna uppi á borðum um persónukjör, sem við fáum vonandi að ræða nánar á næstunni, mun það auðvelda mjög og ýta frekar undir það heldur en hitt að menn séu tilbúnir að fara fram með þær áhugaverðu leiðir sem ég tel að sé orðið löngu tímabært að við þróum. Það er fagnaðarefni að ráðuneytið sé tilbúið og hafi unnið góða heimavinnu í þessum efnum, bæði hvað snýr að þessum rafræna þætti og þeim persónukjörsútfærslum sem hafa verið lagðar fram sem þingskjöl í dag.

Ég vil ítreka enn og aftur að það er fagnaðarefni að þessar tillögur og þessi frumvörp eru komin hér fram og að við fáum tækifæri til þess að fara yfir þetta. Ég vænti þess að menn fái umræðu, umsagnir og samstöðu um þetta mál þannig að hægt verði að afgreiða það annaðhvort núna á vorþingi eða ekki seinna en í byrjun komandi hausts, þannig að menn hafi þann tíma og svigrúm sem þarf til að hrinda þessum málum í framkvæmd.