141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að hlutafélög eru rekin með takmarkaðri ábyrgð eigenda sinna, að vissu marki því að oft er þar til að dreifa bæði eignum sem lagðar hafa verið inn, veðum og eins ábyrgðum eigenda eftir atvikum. Það er alþjóðlegt fyrirkomulag sett fram í ljósi þess að það er mikilvægt fyrir efnahagslífið í heild sinni að atvinnuþróun og nýsköpun sé virk á hverjum tíma. Það er alveg ljóst að stór hluti þeirra nýju fyrirtækja sem sett eru á stofn eiga ekki marga lífdaga og aðeins lítill hluti þeirra nær að komast á legg. Til þess að greiða fyrir því er þetta fyrirkomulag uppi.

Það er hins vegar full ástæða til að taka undir það með hv. þingmanni að ástæða er til að gera mun ríkari kröfur til þeirra sem njóta hinnar takmörkuðu ábyrgðar en við höfum verið að gera, m.a. um það að veita upplýsingar um eignarhald eins og gert er ráð fyrir að betrumbætt sé í þessu frumvarpi og sömuleiðis að gerðar séu miklu strangari kröfur til þess að menn skili reikningum. Það er nú kannski meginvandamálið sem við er að fást þegar ársreikningar eru annars vegar, þ.e. að heimtur á ársreikningum eru algerlega fráleitar hjá okkur og langt frá því sem þekkist í grannríkjum okkar. Þess vegna skoðuðum við sérstaklega leiðir, og ég kallaði sérstaklega eftir minnisblaði við umfjöllun í nefndinni, til þess að herða hér á og auka viðurlög, m.a. möguleika á því að beita einfaldlega þeim viðurlögum að skuldir félags verði einfaldlega skuldir stjórnarmannanna ef þeir ekki standa skil á ársreikningum til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra.