141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og ég áttum góðar samræður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um þær aðgerðir sem grípa þyrfti til til þess að tryggja betri skil ársreikninga, en þau eru mun lakari hér á landi en til dæmis á Norðurlöndunum. Fram kom í umfjöllun í nefndinni að skattyfirvöld hér á landi hafi ráðfært sig við kollega sína á Norðurlöndunum um það hvernig stæði á því að skil á ársreikningum væru mun betri á Norðurlöndunum en hér á landi. Kollegar þeirra á Norðurlöndunum skildu ekki almennilega hvers vegna það væri yfirhöfuð vandamál að fyrirtæki skiluðu ekki inn ársreikningum.

Það er kannski ákveðin ástæða fyrir því sem við tókum ekki nógu vel fyrir við umfjöllun í nefndinni að á Norðurlöndunum, til dæmis í Danmörku eru fyrirtæki einfaldlega afskráð eftir ákveðinn tíma, þremur mánuðum, að ég held, eftir að síðasti skilafrestur ársreiknings rann út.

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið tækifæri núna þegar við fjöllum um frumvarp um breytingar á ársreikningum, til að setja slíkt ákvæði sem breytingartillögu inn í frumvarpið. Ég vil spyrja hv. þingmann og hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort hann sé tilbúinn til að setja slíkt ákvæði inn í frumvarpið áður en það kemur til 3. umr.