141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við byrjum hér á föstum liðum eins og venjulega. Forseti tilkynnti að einn hv. þingmaður hefði sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna. Það er kannski spurning hvort ekki sé rétt að forseti fari yfir það hverjir eru eftir þar, því að það er ekki mikið af mannskap þar eftir það sem á undan er gengið.

Ég ætlaði ekki að fara yfir það heldur ætla ég að vekja athygli á því að nú í morgun hélt forsætisráðherra Bretlands ræðu sem er væntanlega — frá stofnun Evrópusambandsins, frá því að Bretar gengu þar inn — sú ræða sem hefur gengið lengst í þá átt að hvetja til þess að Bretar endurskoði afstöðu sína hvað varðar aðild að Evrópusambandinu. Reyndar sagði breski forsætisráðherrann það beint að hann ætlaði að endursemja um stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins og að loknum þeim samningum vildi hann að slíkur samningur yrði lagður fyrir bresku þjóðina. Hann nefndi þrjár ástæður fyrir því að nú væru breyttir tímar: Í fyrsta lagi að vandi evrusvæðisins mundi kalla á stóra breytingu á Evrópusambandinu, í öðru lagi að það væri krísa varðandi samkeppnishæfni í Evrópu og í þriðja lagi að bilið á milli ESB og þess fólks sem þar býr hefði stækkað svo gríðarlega mikið að mikill lýðræðisvandi væri kominn upp og halli.

Það sem er enn merkilegra er að Angela Merkel sagði að hún væri tilbúin til að ræða við Breta um þessa hluti. Ég fer yfir þetta vegna þess að þetta er svo sannarlega ekki í anda þess sem hér er rætt um þegar þeir sem eru harðastir í því að vilja ganga í Evrópusambandið eru að reyna að lýsa því sem þar fer fram (Forseti hringir.) — og nú væri held ég afskaplega skynsamlegt af þingflokki Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem gengur hvað harðast fram í því að koma okkur inn í Evrópusambandið (Forseti hringir.) að skoða aðeins staðreyndir mála þar.