141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni að þetta fer að verða fastur liður eins og venjulega og það er spurning hversu margir eru eftir í þessu blessaða ríkisstjórnarliði. Ef mér skjöplast ekki þá eru sjö eftir í þingflokki Vinstri grænna og nítján í Samfylkingunni og það er ekki meiri hluti seinast þegar ég tékkaði á því.

Ég kom hins vegar hingað upp til að nefna að í dag minnast Eyjamenn þess að 40 ár eru liðin frá upphafi Heimaeyjargossins. Í tilefni þess verður þakkargjörðarhátíð, athöfn, í Vestmannaeyjum í dag og fyrst og síðast er þakkað fyrir að ekki varð mannskaði. Ég tek undir þær þakkir og tel rétt að héðan úr ræðustól Alþingis sendum við Eyjamönnum okkar bestu kveðjur og þakkir fyrir þann dugnað og elju sem þeir hafa sýnt í kjölfar þessara hamfara síðustu 40 ár.

Annað vildi ég nefna hér: Ég las í Fréttablaðinu í morgun enn eina fréttina af sorpmálum í Austur-Skaftafellssýslu. Nú er það þannig að Mýrdalshreppur fékk neitun frá hæstv. umhverfisráðherra um leyfi til að urða sorpið á Skógarsandi þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hefði mælt með því að undanþágan yrði framlengd til 1. janúar 2014. Við þekkjum öll hér inni söguna af sorpmálum á Kirkjubæjarklaustri varðandi brennslumálin þar, þau bíða enn svara frá umhverfisráðherra.

Hér er annað dæmi sem hefur í för með sér að ef af þessu öllu verður þurfa sveitarstjórnir (Forseti hringir.) í þessum tveimur hreppum að senda sorpið 400 kílómetra og 550 kílómetra leið (Forseti hringir.) til Reykjavíkur í Álfsnesið þar sem (Forseti hringir.) veitt var undanþága til frekari urðunar. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég vil lýsa furðu minni á þessu.