141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag gerast merkir atburðir sem endranær í þingflokki Vinstri grænna. Nú hefur hv. þm. Jón Bjarnason yfirgefið þingflokkinn. (Gripið fram í.) Saga Vinstri grænna á þessu kjörtímabili í þinginu fer að minna mann á söguna um tíu litla negrastráka, það var alltaf einn og einn sem gekk úr skaftinu og að lokum var enginn eftir. Ætli það verði ekki úrslit kosninganna í vor að Vinstri grænir verði um það bil að þurrkast út? Það mætti segja mér, a.m.k. miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað þessi tæpu fjögur ár sem Vinstri grænir hafa verið í ríkisstjórn, enda hefur flokkurinn svikið nær öll kosningaloforð sín til að lúffa fyrir Samfylkingunni. Þetta er nokkuð sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur tekið ákvörðun um á meðan hann hefur vermt hvern ráðherrastólinn á fætur öðrum.

Þetta leiðir hugann að því hvert hæstv. ráðherra er kominn með flokkinn sinn undir Samfylkinguna gagnvart ESB-umsókninni. Það hefur verið farið yfir það í þessum ræðustóli í dag hvernig Bretar eru farnir að líta á aðild sína að Evrópusambandinu, hvernig ástandið er að þróast í Evrópusambandinu og hvernig Evrópusambandið sjálft er með krampakenndar tilraunir til að bjarga því sem bjargað verður í sambandinu. Meira að segja eru komnar fram hugmyndir um að gera þetta að einu sambandsríki til að það sé einhver von til þess að þetta standi eftir.

Nei, þá hamast íslenska ríkisstjórnin áfram með umsókn. Nú er boðuð frestun á viðræðum fram yfir kosningar, sem er alveg ótrúlegt, því að ekki hefur því verið svarað af hálfu Evrópusambandsins hvernig því verður tekið. Verður til dæmis haldið áfram að sáldra IPA-styrkjum yfir íslenskt samfélag á meðan þetta svokallaða viðræðuhlé er? Þessum spurningum verður að svara, virðulegi forseti, en þetta er akkúrat í samhengi við þau örlög (Forseti hringir.) þingflokks Vinstri grænna að þessi leið (Forseti hringir.) var ófær frá upphafi.

(Forseti (RR): Forseti beinir enn og aftur þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutímann.)