141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Já, það var athyglisvert að fylgjast með í upphafi þingfundar og fá fregnir af því að það fækkar enn í ríkisstjórnarliðinu. Samkvæmt talningu ættu stjórnarliðar að vera komnir ofan í 30 talsins ef við drögum frá hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Róbert Marshall sem nú hefur gengið í Bjarta framtíð.

Mig langaði aðeins að ræða þessa stöðu, sérstaklega í ljósi skuldamála heimilanna, og koma inn á það sama og hv. þm. Eygló Harðardóttir gerði áðan sem snýr að fyrirspurn sem var borin fram til fjármálaráðherra í gær um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á skuldum heimilanna.

Eiginlega kom það fram hjá hæstv. ráðherra sem hefur komið fram hjá Samfylkingunni meira og minna allt þetta kjörtímabil, að ekki sé hægt að ráðast í afnám verðtryggingar nema ganga í Evrópusambandið sem 70% þjóðarinnar eru andsnúin, (HHj: Nei, nei.) samkvæmt skoðanakönnunum, hv. þm. Helgi Hjörvar. (Gripið fram í: … þessa könnun.) Þetta er auðvitað bara bull, og það er fráleitt að Samfylkingin (Gripið fram í: Hættu þessu …) sem skilgreinir sig sem jafnaðarmannaflokk skuli ráðast hér fram með þessum hætti og skila algjörlega auðu í þessu mikilvæga máli sem er afnám verðtryggingarinnar, í þessu máli sem hæstv. forsætisráðherra hefur barist fyrir í allri sinni pólitík í öll þessi ár. Samfylkingin skilar auðu í þessu máli — vegna hvers? Vegna þess að annað mál er mikilvægara, Evrópusambandsmálið, og þar er gulrótin á burt, afnám verðtryggingarinnar, og þá er stuðningurinn við Evrópusambandsaðild algjörlega þurrkaður út.

Það ótrúlegasta við þetta allt saman er að það er líklega rétt sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í Kastljóssviðtali nýverið, að það er enginn munur á Bjartri framtíð og Samfylkingunni (Gripið fram í.) því að hún virðist vera með (Forseti hringir.) nákvæmlega sömu stefnu og Samfylkingin, í það minnsta í þessu stóra, mikilvæga máli.