141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fastanefndum þingsins fyrir mikla vinnu í sambandi við frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem liggur fyrir þinginu og er í vinnslu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndarálitin eru öll komin inn nema tvö, frá forsætisnefnd og þingskapanefnd, og eru gífurlega vel unnin og margir sérfræðingar hafa mætt fyrir þær nefndir.

Ég er sjálf þeirrar skoðunar að við hefðum átt og eigum að nýta allan þann umræðutíma sem við höfum í þinginu til að þróa mál áfram. Þess vegna var ég þeirrar skoðunar að óhætt væri að hefja 2. umr. án þess að öll nefndarálit lægju fyrir og hægt væri að semja um hvernig við í þinginu ræddum málin fram og til baka og þróuðum þetta mikla mál í umræðu okkar á milli en ekki í kössum, í hrópum og köllum. Ég varð undir í því áliti eða svo virðist vera, a.m.k. ef ég hlusta á helstu andstæðinga þessa máls sem eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Þess vegna lögðum við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fresta því að afgreiða málið úr nefnd þangað til öll álitin lægju fyrir. Það verður gert núna en það er ekkert nýtt sem kemur fram í álitum síðustu daga.

Það er hins vegar alveg ljóst að frá upphafi hafa valdastéttir í landinu verið (Forseti hringir.) á móti því að þetta mikilvæga mál væri unnið á þann hátt sem nú er gert en (Forseti hringir.) við reynum og höldum áfram.