141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að bregðast við ummælum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, formanns hv. fjárlaganefndar.

Það fór ekki á milli mála þegar menn ræddu efnislega meðferð þeirra greina stjórnarskrárinnar sem áttu að koma til umræðu í hv. fjárlaganefnd og hvernig staðið yrði að málum. Það er rétt að það komi fram að málið var á dagskrá í margar vikur áður en það var tekið fyrir. Ég spurðist sjálfur fyrir um hvernig meiningin væri að vinna það. Það fór ekki á milli mála að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar sagði að meiri hluti hv. fjárlaganefndar hefði tekið ákvörðun um að gestir yrðu ekki kallaðir fyrir nefndina. Það fór ekki á milli mála. Síðan geta menn komið hingað upp og sagt: Það hafa ekki komið beiðnir um að kalla fyrir gesti — þegar búið er að tilkynna að gestir verði ekki kallaðir fyrir. Þetta er náttúrlega bara orðhengilsháttur og skrípalæti. Þetta er í fyrsta sinn sem svona atvik kemur upp í hv. fjárlaganefnd. Þetta fór ekkert á milli mála, tilkynnt var formlega að meiri hluti nefndarinnar hefði tekið þá ákvörðun að gestir yrðu ekki kallaðir til. Þá spyr maður sig: Hver er þá tilgangurinn að kalla til gesti? Og vísa svo til þess að þeir geti fundið fundargerðina. Það vita allir hv. þingmenn hvernig fundargerðirnar eru. Þar stendur bara mætt kl. þetta og farið kl. þetta og það er yfirleitt aldrei rétt. Það gefur því augaleið að þetta er orðhengilsháttur. Þetta er í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem menn hafa dregið í efa það sem gerist í hv. fjárlaganefnd.

Síðan vil ég segja út af ummælum hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, sem er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og þeirri athyglisverðu nálgun að vilja taka mál til umræðu áður en umsagnir um þau hafa borist að það lýsi í raun og veru þeim ógöngum sem þetta mál er í. Mikið var gert úr því að leitað yrði álits hjá svokallaðri Feneyjanefnd og hv. þingmaður sem ég nefndi fór sérstaka ferð til að kynna þetta mál. Hins vegar þykir allt í lagi að fjalla um málið áður en komin er umsögn frá þessari nefnd, það eigi bara að þróa málið einhvern veginn áfram. Þetta er skýrasta dæmið um hvaða ógöngur þetta mál er komið í.