141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Er hæstv. forsætisráðherra sátt við það nú þegar aðeins er rúm vika í að hún skili af sér formennsku í Samfylkingunni og ekki nema þrír mánuðir í að hún skili af sér lyklunum að Stjórnarráðinu hvernig til hefur tekist í skuldamálum heimilanna í tíð hæstv. forsætisráðherra?

Hæstv. forsætisráðherra talaði áratugum saman um mikilvægi þess að afnema verðtrygginguna en hefur svo ekkert gert í þeim efnum á þeim fjórum árum þegar tækifæri gafst til og svo mikil tækifæri að hæstv. forsætisráðherra fékk að stýra ríkisstjórn, reyndar með því skilyrði í upphafi að gripið yrði til róttækra ráðstafana vegna skuldamála heimilanna.

Nú horfum við upp á það í lok þessa kjörtímabils að heil kynslóð Íslendinga er svo að segja eignalaus, með neikvætt eigið fé. Fólk sem hefur fjárfest á undanförnum árum á minna en ekki neitt, skuldar meira en það á. Er þetta ásættanlegur viðskilnaður að mati hæstv. forsætisráðherra? Er það ásættanlegt að mati hæstv. forsætisráðherra að hafa ekki nýtt þau gríðarlega stóru tækifæri sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir í upphafi valdatíðar sinnar til að færa niður lán heimilanna þegar bönkunum var skipt upp? Það kemur fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um það að fara ekki í þá niðurfærslu sem rök hefðu verið fyrir og framkvæmanleg hefði verið með það að markmiði að reyna að gleðja kröfuhafa bankanna sem höfðu tapað svo miklum fjármunum. Sér hæstv. forsætisráðherra ekki eftir því að hafa ekki nýtt þetta tækifæri? Hæstv. ráðherra hefur reyndar enn fjórum árum eftir að fyrstu tillögur framsóknarmanna um lausn á skuldavandanum komu fram ekki kynnt sér þær tillögur að því er virðist miðað við málflutning hennar þar sem hún heldur því enn fram að þær hafi falið í sér að kostnaðurinn ætti að lenda á ríkinu og lífeyrissjóðunum þegar augljóst var að þær voru framkvæmanlegar og svo sannarlega réttlætanlegt að þessi kostnaður lenti á þrotabúum bankanna.

Mun hæstv. forsætisráðherra skilja við stöðuna eins og hún er núna eða mun hún nota tækifærið þessa síðustu þrjá mánuði til að gera gagngerar breytingar? Framsóknarmenn lýsa sig einu sinni sem oftar tilbúna til að vinna með ríkisstjórninni nú á lokasprettinum að því að reyna að leysa þennan vanda. Við lögðum reyndar á sínum tíma til svokallað samvinnuráð um þjóðarsátt. Haldnir voru um það held ég tveir hefðbundnir sýndarfundir ríkisstjórnarinnar en ekkert gert með þær tillögur sem þar komu fram þó að nú sé ljóst að ef þær hefðu verið nýttar á árinu 2010 væri staðan allt önnur og betri núna. Ég býð því hæstv. forsætisráðherra upp á það eina ferðina enn að við framsóknarmenn aðstoðum ríkisstjórnina á lokasprettinum við að finna lausn á þessum málum. Vill hæstv. forsætisráðherra þiggja það að Framsóknarflokkurinn sendi eins konar björgunarteymi til aðstoðar ríkisstjórninni við það að leita lausna og finna út úr því hvernig megi koma þeim í framkvæmd nú fyrir kosningar og bjarga þar með ríkisstjórninni að nokkru frá því klúðri sem hún hefur búið til á þessum fjórum árum? Það er þess virði að okkar mati að hjálpa ríkisstjórninni vegna þess að nú, eins og undanfarin fjögur ár, má úrlausn þessara mála engan tíma missa.

Það liggur ljóst fyrir og varla ætlar hæstv. forsætisráðherra að andmæla því að 110%-leiðin, flaggskip ríkisstjórnarinnar í því að koma til móts við heimilin, hefur ekki virkað, engan veginn. Nú þyrfti þetta líklega að vera 130%-leiðin. Það liggur líka ljóst fyrir að þær tölur sem hæstv. forsætisráðherra hefur nefnt um það hversu mikið stjórnvöld hafi lækkað lán heimilanna eru að langmestu leyti til komnar vegna dóma Hæstaréttar. Það sem ríkisstjórnin státar sig af í þessu efni er því sáralítið og í sumum tilvikum jafnvel verra en ekki neitt. Það sem hefur gerst hefur gerst fyrir tilstilli dómstóla. Er þá ekki rétt að komið sé til móts við þau heimili sem eru með verðtryggð lán til að jafna stöðu þeirra á einhvern hátt til samræmis við þau heimili sem voru með myntkörfulán og hafa fengið þau leiðrétt í gegnum dómstóla? Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin til þess nú á lokasprettinum að endurmeta afstöðu sína til þessara mála og bjarga ferli sínum sem forsætisráðherra?