141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[15:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég held að það ætti að vera alveg óumdeilt að staða heimilanna er ekki eins og við vildum sjá hana núna í upphafi árs 2013. Miðað við öll fögru fyrirheitin sem voru gefin á árinu 2009, 2010 og 2011 þá er staðan miklu verri. Forsætisráðherra talar mjög gjarnan um það að skuldir heimilanna séu sambærilegar því sem var árið 2007. Þetta tel ég að sé ekki alveg sannleikanum samkvæmt.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna eru í dag hærri en þær voru árið 2007. Svo vitum við líka fleira. Það voru innan við fimm þúsund heimili árið 2007 með neikvætt eigið fé. Í dag eru þau yfir 25 þúsund. Yfir 25 þúsund heimili eru með neikvætt eigið fé í dag. Ef við ætlum að bera okkur saman við árið 2007 er alveg augljóst að staða heimilanna er mun verri og þó að menn geti gripið í einhvern svona mælikvarða þá er það alls ekki til þess að gefa rétta mynd af stöðunni.

Við fáum líka nýjar tölur núna frá Hagstofunni um brottflutta einstaklinga. Í fyrra fóru um það bil 1.000 íslenskir ríkisborgarar, nákvæmlega voru þeir 932, umfram aðflutta. Nú eru þeir að verða komnir upp í 6.000 á þessu kjörtímabili. Það er eins og heilt, stórt sveitarfélag á Íslandi væri bara horfið, gufað upp, farið til annarra landa. Allt þetta samantekið sýnir okkur að við erum alls ekki á þeim stað sem að var stefnt. Það er kominn tími fyrir menn að horfast í augu við það að úrræðin sem kynnt hafa verið til sögunnar, vel meint úrræði, hafa reynst ófullnægjandi. Þau eru of þunglamaleg og þau ná ekki tilgangi sínum. Það er staðreynd málsins og við verðum líka að horfast í augu við það að allar aðgerðir sem áttu að bæta tekjuhlið heimilanna (Forseti hringir.) hafa ekki gengið eftir. Við verðum einfaldlega að fara að skapa einhvern vöxt og aukin umsvif í þjóðfélaginu, þannig að fólk geti haft tekjur og staðið í skilum.