141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil rifja upp að í kjölfar kosninganna árið 2003 átti sér stað gjörningur sem rannsóknarnefnd Alþingis sagði vera, með leyfi forseta, „ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna, mistök sem gerð voru með fullri þekkingu á mögulegum afleiðingum, sem ekki létu á sér standa og voru tvíefldar í alþjóðlegu lágvaxtaumhverfi.“

Þessi gjörningur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins til þess að halda völdum hefur í framhaldinu reynst heimilum landsins dýrkeyptur eins og landsmenn þekkja. Stjórnvöld hafa í kjölfar hrunsins gripið til fjölda aðgerða til þess að taka á vandanum, og hefur umtalsverður árangur náðst, sem lækkað hafa skuldir heimilanna þó að ýmislegt sé vissulega óunnið sem glíma þarf við áfram, bæði verðbólgan og verðtryggingin.

Gengislánadómar hafa bætt stöðu skuldara og á tveimur síðustu árum hafa skuldir heimilanna eftir sem áður lækkað um 300 milljarða, það munar um slíkt. Skuldaaðlögun heimilanna, niðurfærsla lána, hækkun vaxtabóta eru meðal þeirra leiða sem farnar hafa verið. Áherslur félagshyggjuflokkanna koma fram í því að fjármagninu er beint til þeirra hópa sem helst þurfa á því að halda og í fjárlögum þessa árs eru til dæmis lagðir til 4,5 milljarðar í ný framlög til barnafjölskyldna þar sem rannsóknir benda til að það séu þær sem hvað höllustum fæti standa. Um er að ræða aðgerðir, stórauknar barnabætur, húsnæðis- og vaxtabætur, hækkun á greiðslum vegna fæðingarorlofs, svo eitthvað sé nefnt.

En við verðum að muna það að ekki er hægt að fara fram með einhver gylliboð sem engin innstæða er fyrir í veruleikanum og Framsóknarflokkurinn ætti nú að minnast þess í því sambandi. Fái ríkisstjórnarflokkarnir endurnýjað umboð sitt í komandi kosningum verður því haldið áfram á braut ábyrgrar efnahagsstjórnar (Forseti hringir.) sem kemur heimilum í landinu til góða.