141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[15:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem fór fram um hina margumtöluðu grein fyrrverandi þingmanns, Sighvats Björgvinssonar, um sjálfhverfu kynslóðina var einn sem tók sig til sem tilheyrði þeirri kynslóð og leit yfir talnagögn um skattframtöl einstaklinga. Þar kom fram að hrein eign, eignir mínus skuldir, einstaklinga á aldrinum 31–45 ára, hinnar svokölluðu sjálfhverfu kynslóðar, féllu úr því að vera 137 milljarðar niður í mínus 8 milljarða á árunum 2006–2011. Það er lækkun upp á 106%. Á sama tímabili jókst eignastaða hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga hennar á aldrinum 61–75 ára um 34%, úr 512 milljörðum í 684 milljarða.

Þetta er vandinn sem við þurfum að horfast í augu við, hvernig við eigum að taka nákvæmlega á þessu.

Hlutfall heimila sem eiga vart fyrir grunngjöldum er hærra hér en á Norðurlöndunum. Við erum Evrópumeistarar í vanskilum í Evrópu og höfum verið það um nokkurt skeið. Það er enn beðið eftir endurútreikningum lána, þ.e. gengistryggðu lánanna, og þar virðist lítið gerast.

Við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt fram tillögur. Að sama skapi hafa viðbrögðin verið frá stjórnarliðum, frá hæstv. ráðherra, að tala þær niður, ýta þeim út af borðinu, segja að þær séu ómögulegar. Það er því kannski ekki skrýtið að maður hiki eilítið þegar maður þarf að setjast niður við sama borð og hæstv. forsætisráðherra.