141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil að gefnu tilefni vara eindregið við því að við reynum í þessari umræðu að etja saman kynslóðunum í landinu, ég held að það verði engum til gagns. Hitt er svo hverjum manni ljóst að fjárhagsstaða íslenskra heimila er lakari en hún var síðustu missirin fyrir hrun, enda varð hrunið að hluta til vegna þess að ekki var innstæða fyrir þeirri fjárhagsstöðu sem þá virtist vera og er nokkuð langt þangað til við munum ná henni á nýjan leik.

Hins vegar er hún miklum mun betri en ætla mátti við hrunið að yrði á næstu árum. Það er vegna þess að tekist hefur að verja vinnuna, tekist hefur að ná hagvexti í landinu og greiða úr stærstu viðfangsefnunum eftir hrun með þeim hætti að betur hefur gengið en margir af hinum bjartsýnustu mönnum ætluðu. Það breytir ekki því að enn er við mikinn vanda að etja. Margvísleg úrræði ríkisstjórnarinnar hafa sannarlega hjálpað fólki og ekki síður dómar Hæstaréttar en eftir stendur venjulegt fólk með verðtryggð íbúðalán.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða gagnvart verðtryggðu lánunum vegna þess ójafnvægis sem er milli gengislánafólksins og þeirra sem hafa verðtryggð lán. Ég verð að segja að það er holur hljómur í formanni Sjálfstæðisflokksins að kalla eftir aðgerðum gagnvart þessum hópi því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki neinar slíkar hugmyndir. Ég held hins vegar að við getum bundið vonir við það að forsætisráðherra, forustumenn í Vinstri grænum og forustumenn í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hafa allir talað fyrir því að óhjákvæmilegt sé að koma til móts við það fólk, við þá kynslóð sem keypti húsnæði á árunum fyrir hrun, enn frekar en gert hefur verið. Það sé fagnaðarefni og ég fagna því að forsætisráðherra áréttar þau sjónarmið aftur. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nýverið áréttað þau og ég hvet flokkana til að setjast niður og gera þó það skref að veruleika því að það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir (Forseti hringir.) þúsundir heimila að menn klári það verkefni.