141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[16:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Sú aðgerð sem mest hefur munað um varðandi það að lækka skuldir heimilanna kom ekki frá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar voru engar aðgerðir sem urðu þess valdandi að 150 milljarða skuldalækkun varð hjá heimilunum í landinu. Skuldalækkunin varð vegna þess að Hæstiréttur dæmdi gengislánin ólögleg. Það kom fram nú nýverið í svari hæstv. atvinnuvegaráðherra að 75% af þeirri skuldalækkun sem hér hefur orðið eru vegna dóma Hæstaréttar, 75% af því sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eignar sér eru vegna dóma Hæstaréttar. Síðan getur maður spurt sig að því hvernig ríkisstjórnarflokkunum hefur gengið að fylgja þeim dómum eftir og hvernig gengið hefur að greiða úr þeim ósköpum sem þeir hópar lentu í vegna gengistryggðu lánanna.

Það sem ríkisstjórnin hefur gert er að þvælast fyrir, númer eitt, tvo og þrjú, með því að setja af stað flókin úrræði, með því að vera í smáskammtalækningum og niðurstaðan er því miður sú að við höfum ekki náð þeim árangri hér sem að var stefnt. Það er líka vegna þess að menn vilja ekki horfast í augu við það að heimilin á Íslandi eru ekki eyland, þau bera nú uppi þetta þjóðfélag. Til þess að þeim vegni vel þarf að vera vinna í landinu, það þarf að vera vöxtur í landinu, það þarf að skapa fjárfestingu, það þarf að auka umsvifin. Þar hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mistekist.

Síðan er það líka athyglisvert, af því að hæstv. forsætisráðherra segir að hún sé tilbúin að setjast niður og ræða málin, að velta fyrir sér hvaða mál er á dagskrá í þinginu af hálfu þessarar nú klárlega minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Eru það mál sem menn eru sammála um? Er verið að nota síðustu vikur þingsins til að ræða þau mál sem við getum sameinast um? Nei, hér er stöðugt alið á átökum og leiðindum þegar við ættum að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að nota síðustu vikurnar í að gera það sem við getum til að bæta hag íslenskra heimila.