141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

fjárhagsstaða íslenskra heimila.

[16:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þýðir lítið að samþykkja að fá björgunarsveitina ef hún veit ekki hvaða áhrif það hefur sem hún ætlar að leggja til. Það er einmitt það sem vantar, (Gripið fram í.) að meta áhrifin af þeim leiðum sem Framsóknarflokkurinn vill fara, bæði á efnahagsstöðuna ef þessi leið verður farin, áhrif á heimilin, áhrif á verðbólgu, áhrif á gengi. Það þarf að viðurkenna það í þessum ræðustól, þegar við ræðum skuldastöðu heimilanna, sem vel hefur verið gert en viðurkenna líka að enn er vandi til staðar. Það er það sem ég reyndi að gera í ræðu minni.

Það liggur fyrir að sú skuldaaukning sem heimilin urðu fyrir í hruninu er gengin til baka. Það er sjálfsagt að fagna því. Hrein eign heimila hefur aukist og er svipuð og hún var fyrir bóluárin 2005–2007.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hélt því fram áðan að 25 þús. heimila væru með neikvætt eigið fé. Það var árið 2010, en árið 2011 voru þau 20 þúsund. Þau fóru úr 25 þúsundum í 20 þúsund. Og hvað eru þau þá mörg árið 2012? Við skulum fara rétt með tölur í því efni.

Það er hins vegar alveg rétt að vanskil heimila hafa aukist. Um 10 þús. manns hafa bæst við á vanskilaskrá frá hruni. Það ber auðvitað að viðurkenna það. En það skal líka horft til þess að um 50% fækkun á árangurslausu fjárnámi hjá einstaklingum varð fyrstu átta mánuðina 2011–2012. Farið hafa 100 milljarðar í barnabætur og vaxtabætur á þessu kjörtímabili, m.a. til þeirra heimila sem þurft hafa að standa í því að greiða niður verðtryggðar skuldir. Valkostirnir að því er varðar verðtryggðar skuldir hafa aukist á kjörtímabilinu. En ég er sannarlega tilbúin að skoða hvort aðrar leiðir eru færar í þessu efni, t.d. þaksetning verðbóta. Það verður samt að vera með þeim hætti að við setjum ekki allt á hliðina í ríkissjóði og það hafi þá raunveruleg áhrif fyrir heimilin í landinu en verði ekki til þess að auka hér verðbólgu eða hafa neikvæð áhrif á gengið, sem er það versta (Forseti hringir.) sem heimilin geta orðið fyrir.