141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst almennt í stjórnmálum að það sé verkefni yfirvalda eða stjórnvalda að sjá til þess að skilyrði fyrir mannlíf svo það geti blómstrað séu í lagi, svo að atvinnulíf geti blómstrað, svo að einstaklingar geti notið sín og farið út í atvinnurekstur og ýmislegt sem hugur þeirra stendur til. Þetta finnst mér vera sú frjálslynda nálgun á stjórnmál sem ég held að við ættum að leggja áherslu á.

Óveðrið á Vestfjörðum á dögunum sýndi að við eigum rosalega langt í land hvað þetta varðar á Vestfjörðum. Við erum ekki að tala bara um einhverjar betrumbætur á Vestfjörðum, við erum að tala um að grunnskilyrði fyrir atvinnulíf og mannlíf eru ekki fyrir hendi. Það eru ekki vegasamgöngur innan Vestfjarða stóran hluta úr ári. Það eru ekki vegasamgöngur til ákveðinna hluta Vestfjarða stóran hlut úr ári. Þessir vegir eru einhvers konar vegasöfn — ef maður vill sjá hvernig vegirnir voru 1950 er athyglisvert að keyra Dynjandisheiðina. Það er ekki raforkuöryggi. Það sáum við í óveðrinu, en það hefur verið og er viðvarandi vandamál á Vestfjörðum og háir atvinnuuppbyggingu. Fyrirtæki yfirgefa Vestfirði vegna þess að það er ekki raforkuöryggi þar. Ég veit ekki hvort allir átta sig á þessu, en grunnskilyrðin þurfa að vera fyrir hendi svo að framtakið geti notið sín, svo allur sá mannauður sem þarna er geti notið sín. Óveðrið dró þetta fram.

Það er náttúrlega ýmislegt í spilunum. Dýrafjarðargöng eru í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, það er fínt. Virkjun á Ströndum er í nýtingarflokki í rammaáætlun. Það er líka fínt, þannig að það ættu að vera einhver sóknarfæri til að takast á við þessi stórbrotnu vandamál.