141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta brýna mál upp. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast snöggt við og mæta hér strax til umræðu.

Óveðrið sem geisaði á Vestfjörðum um jólahátíðarnar opinberaði þá veikleika sem eru á því svæði í grunngerðinni, þ.e. í raforkumálum, samgöngumálum og fjarskiptamálum. Ef við förum aðeins yfir þetta í rólegheitunum getum við brugðist við sumum af þessum hlutum á skemmri tíma en öðrum. Ef við tökum til að mynda samgöngumálin er augljóst að þar er hægt að bregðast við með því að fara í þær snjóflóðavarnir sem þarf á Súðavíkurhlíðinni og Kirkjubólshlíðinni. Það er vert að huga að því að í ofanflóðasjóði eru töluvert miklir peningar og hægt að fara í þær framkvæmdir.

Ef við förum yfir raforkumálin er auðvitað gríðarlega mikilvægt og hefur komið fram að það þarf að styrkja varaaflið og koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í þessu óveðri komi upp aftur.

Síðast en ekki síst þarf að bregðast við í fjarskiptamálunum, þ.e. tryggja varaaflið fyrir neyðarsendana, GSM-senda og Tetra-kerfið sem þar falla undir. Það er algjörlega óásættanlegt sem kom fram í umræðunni hjá málshefjanda að bæði lögregla og almannavarnir hafi verið sambandslaus á tímabili. Það gefur augaleið að við því verður að bregðast.

Ég vil í lokin hvetja hæstv. ráðherra og stjórnvöld til að taka málin föstum tökum og koma þessum hlutum, bæði í samgöngumálum, raforkumálum og fjarskiptamálum, í betra horf en nú er. Ég treysti á að hæstv. ráðherra standi sig vel í því eins og svo mörgu öðru sem hann tekur sér fyrir hendur og hvet hann til dáða og til að hafa náið samráð við heimamenn og alla þá sem að málinu koma.