141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Eins og fram hefur komið afhjúpaði óveðrið veikleika sem reyndar áttu ekki að koma nokkru okkar á óvart. Það hefur verið umræða um það í langan tíma að raforkukerfið, fjarskiptakerfið og samgöngukerfið væri í molum á Vestfjörðum, það sama má segja um Norðausturland, það sama má segja um dreifbýli frá Markarfljóti austur að Hornafirði og litlu skárra er ástandið á Snæfellsnesi að hluta til, í Húnavatnssýslunum og öðru dreifbýli á Íslandi. Við ættum kannski frekar að spyrja okkur af hverju við komum hérna upp og erum öll sammála um að þetta gangi ekki lengur, en það gerist aldrei neitt.

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand síðastliðinna fjögurra ára hefur ríkisstjórnin ekki gert mikið til þess að laga þetta. Til að mynda hefur ekkert verið gert varðandi raforkukerfið og jöfnun raforkuverðs og til að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Við stöndum í sömu sporum og við stóðum í fyrir fjórum árum.

Varðandi fjarskiptakerfið hafa verið að opnast, a.m.k. fyrir mér, þeir möguleikar að hægt er að ljósleiðaravæða landið fyrir mun lægri upphæðir en áður þekktust. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til þess að taka á því máli á síðustu mánuðum þessarar ríkisstjórnar.

Varðandi samgöngumálin er rétt að stór hluti af þeim úrbótum mun taka lengri tíma, en við þurfum kannski að fara að forgangsraða þannig að tryggja grunnþjónustu, grunnsamgöngur, hvort sem er í fjarskiptum eða á vegum, um þessi landsvæði, á Vestfjörðum og á þeim landsvæðum sem ég nefndi.

Það er ekki boðlegt að við komum hér upp í hvert sinn sem óveður hefur gengið yfir einhvern hluta landsins og séum sammála um að eitthvað þurfi að gera meðan við gerum ekki neitt.

Ég vil benda á að við framsóknarmenn (Forseti hringir.) höfum lagt fram hugmyndir til að mynda um að jafna raforkukostnaðinn og að tryggja betur afhendingaröryggið en nú er. (Forseti hringir.) Kannski eigum við skoða þær hugmyndir betur.