141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

sala fasteigna og skipa.

457. mál
[17:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það má deila um hvað er seint í þessum skilningi. Það hefði einhvern tímann ekki þótt seint að stjórnarfrumvarp kæmi til 1. umr. strax upp úr miðjum janúar, en vissulega er stutt þing fram undan. Þetta frumvarp er líklega milli 25 og 30 í röðinni af þeim sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur verið að vinna að og lagt fram á þingi. Stór hluti þeirra kom fram strax í september og síðan í októbermánuði. Auðvitað verður ekki allt unnið í einu í þessum tilvikum. Þetta frumvarp er þar af leiðandi að koma til umræðu nú en það er búið að liggja frammi á þinginu um nokkurt skeið. Þingmönnum er það kunnugt frá fyrri umfjöllun um málið og sömuleiðis er frumvarpið búið að fara nokkrar ferðir inn á þing og þá hafa komið fram athugasemdir og umsagnir við það sem unnið hefur verið úr og reynt að betrumbæta málið þannig að það væri hér í góðum búningi til afgreiðslu.

Ég held að það sé ekkert leyndarmál að tiltekin atriði í frumvörpunum á undanförnum árum hafa verið umdeild, eins og spurningin um afnám skylduaðildar að Félagi fasteignasala. Það ber ekki að draga dul á að sitt hefur hverjum sýnst um það, en hér er valin sú leið að halda sig við fyrri útfærslu, þ.e. að skylduaðildin falli brott, og fyrir því færð allgóð rök, að ég tel, að þess eigi ekki að vera þörf lengur. Auðvitað er bagalegt ef núningur um slík tiltekin afmörkuð atriði tefur að heildarendurskoðun á lögum sem unnið hefur verið að í mörg ár, eins og í þessi tilviki, nái fram að ganga. Ég held að það sé enginn vafi á því að þetta felur í sér almennt skýrari og betri ramma um þessi viðskipti.