141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

vátryggingastarfsemi og miðlun vátrygginga.

489. mál
[17:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, og lögum um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005. Efni þessa frumvarps snýr aðallega að markaðssetningu, stjórnarháttum og eftirliti og er málið á þskj. 630, mál nr. 489.

Frumvarp þetta byggir meðal annars á ábendingum frá Fjármálaeftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA um þarfar breytingar á löggjöf á sviði vátrygginga. Vátryggingar gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi og því mikilvægt að marka skýran lagaramma sem stuðlar að traustum og heilbrigðum rekstri vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara.

Í I. kafla frumvarpsins eru tillögur að breytingum á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi. Þær breytingar lúta einna helst að markaðssetningu, stjórnarháttum og eftirliti. Þá er einnig að finna smávægilegar breytingar á XX. kafla laganna um gjaldþrotaskipti.

Helstu breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi eru sem hér segir:

Lagt er til að vátryggingafélögum sem ekki hafa starfsleyfi hér á landi sé ekki heimilt að markaðssetja sig á Íslandi og að önnur vátryggingafélög en þau sem hafa starfsleyfi á Íslandi geti ekki boðið lögbundnar vátryggingar.

Lagt er til að vátryggingafélagi verði gert að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins ef það hyggst útvista þáttum í starfsemi sinni.

Þá er lagt til að hæfi til að fara með virkan eignarhlut skuli vera viðvarandi og að verði breytingar á upplýsingum sem gætu haft áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins geti Fjármálaeftirlitið tekið hæfi aðilans til endurskoðunar.

Lagt er til að settar verði skorður við þátttöku stjórnarmanna í meðferð eigin mála og takmarkanir settar á setu þeirra í stjórn annarra eftirlitsskyldra aðila.

Lagt er til að skýrt verði tekið fram að komi til gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi skuli fara eftir sömu málsmeðferðarreglum og ef kæmi til slitameðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Einnig er lagt til að vátryggingafélögum skuli alltaf gert að sýna fram á eignir í efnahagsreikningi sem koma á móti kröfum sem eru á undan vátryggingaskuldinni í skuldaröðinni.

Í II. kafla frumvarpsins eru tillögur um breytingar á lögum nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga. Helstu breytingar á þeim lögum eru sem hér segir:

Lagt er til að lögaðili sem sækir um starfsleyfi til vátryggingamiðlunar skuli skila inn upplýsingum varðandi fyrirhugaða starfsemi.

Lagt er til að í þeim tilfellum þegar vátryggingamiðlari, sem er undir eftirliti annars aðildarríkis, hefur gerst brotlegur við lög svo varðað geti réttindamissi skuli Fjármálaeftirlitið tilkynna það lögbærum eftirlitsaðila vátryggingamiðlarans.

Þá er að lokum lagt til að vátryggingamiðlurum sé gert að setja upp skipulegt innra ferli til að svara og bregðast við þeim kvörtunum sem kunna að berast.

Legg ég svo til, virðulegur forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.