141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

endurskoðendur.

503. mál
[17:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum. Þetta mál er á þskj. 645, mál nr. 503.

Frumvarp þetta byggir meðal annars á ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist frá endurskoðendaráði um atriði sem valdið hafa ráðinu vandkvæðum við framkvæmd eftirlits sem því er falið í lögunum. Í frumvarpinu er lagt til að prófnefnd endurskoðenda sem hingað til hefur heyrt undir endurskoðendaráð færist beint undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Er þessi breyting í samræmi við reglur sem gilda um aðrar prófnefndir á vegum ráðuneytisins. Þannig mun ráðherra skipa í prófnefndina í stað endurskoðendaráðs.

Einnig er lagt til að endurskoðendaráði verði falið að hafa eftirlit með því að endurskoðendur gæti að fyrirmælum laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þá er gerð tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella tímabundið í 12 vikur niður réttindi endurskoðenda til endurskoðunarstarfa í tilteknum tilvikum. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda sem til dæmis sinnir endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu.

Í frumvarpinu er lagt til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja í tilteknum tilvikum en telja verður æskilegt að ráðherra hafi umrædda heimild ef endurskoðunarfyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði laganna fyrir starfsleyfi.

Lagðar eru til breytingar til innleiðingar á tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar, annars vegar um samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum, hins vegar um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingakerfa og rannsóknar- og viðlagakerfa aðildarríkja ESB annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til að gera samning við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um samvinnu við eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Þetta er meginefni frumvarpsins, virðulegi forseti, og ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.