141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingarnar. Þær eru sannarlega réttmætar og margt sem þarf að taka til endurskoðunar varðandi bókhald, ársreikninga og endurskoðun eftir þau áföll sem riðið hafa yfir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í nefndaráliti með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar eru ábendingar hv. þingmanns og þau vandamál sem af þeim leiða ágætlega rakin, hygg ég.

Ég legg áherslu á að þetta er ekki fyrsta endurskoðunarmálið sem flutt er í tengslum við ársreikninga, bókhald og endurskoðendur en um leið er þetta auðvitað ekki séríslenskt vandamál heldur alþjóðlegt og á því þarf að finna alþjóðlegar lausnir, eins og hv. þingmaður hefur vakið athygli á.