141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu bankanna, hinni síðari. Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda. Það kom meðal annars fram hjá formanni Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þegar þessi mál voru til umræðu hér 2010 að fara þyrfti fram rannsókn á þeirri einkavæðingu sem átti sér stað 2010 einhliða af hendi þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar.

Ferli málsins var að þessi tillaga fékk ekki þinglega meðferð, en svo fóru þingmenn stjórnarflokkanna af stað með tillögu á síðasta þingi sem fól í sér að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri og var sú þingsályktunartillaga meira eða minna lifandi á síðasta þingi. Þegar hún kom fram lagði ég fram breytingartillögu við hana því að ef rannsaka á einkavæðinguna hina fyrri er eðlilegt að taka einkavæðingu bankanna hina síðari samhliða rannsókn hinnar fyrri. Ég tel, virðulegi forseti, að þessi mál séu samtvinnuð og það eigi að leysa þau og rannsaka í samfellu, sér í lagi þegar litið er til þess að rannsókn á fyrri einkavæðingu bankanna hefur verið gerð ítarleg skil og má segja að sé raunverulega fullrannsökuð, en meiri hluti stjórnarflokkanna taldi að eitthvað ætti eftir að rannsaka þar, gott og vel.

Þetta mál var til umfjöllunar á síðasta þingi en var ekki útrætt en nú í haust, á þessu þingi, var þingsályktunartillagan endurvakin og þá lagði ég á ný fram breytingartillögu um að rannsókn á einkavæðingunni hinni síðari færi jafnframt fram.

Miklar umræður voru um hvort þessar rannsóknir ættu að fara fram samhliða. Hér voru gefin mikil vilyrði hjá meiri hlutanum í þá veru að ef breytingartillaga mín yrði ekki samþykkt mundu nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd jafnvel verða meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögu þeirri sem nú er til umræðu ef hún kæmi fram í þinginu. Svo fór að rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri var samþykkt í þinginu án þess að breytingartillaga mín næði fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég bendi á að allt hið neikvæða hefur ræst varðandi lagasetninguna um rannsóknarnefndir Alþingis vegna þess að þessi rannsókn var samþykkt í þinginu með 24 atkvæðum. Það er eins og sumir þingmenn átti sig ekki á því hvað það er alvarlegt að fara fram með tillögu þar sem ræsa á út rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka mál sem miður hafa farið í samfélaginu þegar ekki fleiri stjórnarliðar samþykkja þá rannsókn.

Við skulum alveg átta okkur á því hvað þetta er kostnaðarsamt. Stundum er þetta langt ferli. Þessum rannsóknarnefndum eru falin mjög mikil völd. Þær hafa mjög víðtækt umboð til að komast í trúnaðargögn og trúnaðarupplýsingar, sér í lagi þegar um bankastofnanir er að ræða þar sem á hvílir bankaleynd. Ég hef hugsað hvort ekki þurfi að breyta lögunum um rannsóknarnefndir Alþingis á þann hátt að aukinn meiri hluta alþingismanna þurfi til að samþykkja rannsókn, en það ætla ég að skoða á komandi þingi. Það stendur beinlínis í lögunum að þegar stofnað er til rannsóknarnefndar á vegum Alþingis er eitt af skilyrðunum að ekki megi nota það á einhvern hátt í pólitískum tilgangi til að ná sér niður á pólitískum andstæðingum á þingi. Því miður virðist sú rannsókn sem var sett af stað fyrir jól varðandi fyrri einkavæðinguna vera svolítið lituð af því, sérstaklega vegna þess að búið er að rannsaka það mál ansi vel.

Ég ætla ekki að staldra við það en þegar það mál var komið í gegnum þingið, búið að fella þá breytingartillögu sem nú birtist í formi þingsályktunartillögu, þá stóð meiri hlutinn auðvitað ekki við stóru orðin. Ég gaf þeim mikið svigrúm til að taka ákvörðun um að verða meðflutningsmenn mínir á þessari þingsályktunartillögu, eins og má segja að hafi verið gefið í skyn hér í umræðunni, en allt kom fyrir ekki. Það heyktist hver þingmaðurinn á fætur öðrum á því að flytja þetta mál með mér og meira að segja, virðulegi forseti, endaði málið á þann hátt þegar ég var búin að setja þessum þingmönnum úrslitakosti varðandi tímamörk að aðstoðarseðlabankastjóri var kallaður fyrir nefndina til að reyna að fá hann til að benda á eitthvað neikvætt við þessa þingsályktunartillögu. Ég held að það sé einsdæmi í sögu þingsins að kallaðir séu gestir fyrir nefnd, í þessu tilfelli stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, til að segja álit sitt á máli sem var ekki einu sinni búið að fá númer í þinginu, það var raunverulega ekki orðið að þingmáli. Í orðum aðstoðarseðlabankastjóra mátti skilja að þarna væri eitthvað sem mætti betur fara og þá hlupu viðkomandi þingmenn af málinu og endaði það með því sem ég var búin að lofa og tala um í umræðunni fyrir áramót, að ég lagði þessa tillögu fram ein. Nú er hún hér til fyrri umr. og fer svo til nefndar.

Virðulegi forseti. Mig langar að lesa upp þessa þingsályktunartillögu ásamt greinargerð svo að það sé alveg skýrt um hvað málið fjallar. Til upprifjunar skal það sagt hér að við framsóknarmenn lögðum fram tillögur okkar um 20% niðurfærslu lána fyrir alla í síðustu kosningabaráttu vegna þess að ríkið fékk bankana í fangið. Þess bera að geta að íslenska ríkið fékk Glitni fyrst í fangið þó að hann hefði aldrei verið einkavæddur því að margir vilja rekja bankahrunið til þess að bankarnir voru einkavæddir en það var Glitnir sem fór fyrstur í fangið á ríkinu og svo vitum við þróunina, hvernig þetta var. Fyrir rest hrundi bankakerfið og íslenska ríkið tók það yfir. Á þessum tímapunkti var gerlegt að fella niður skuldir heimila landsmanna um 20% á alla þá sem voru með lán en sú leið var ekki farin. Í stað þess að koma til móts við heimilin færði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra kröfuhöfum bankana, ég hef kallað þá andlitslausa eigendur.

Við höfum spurt mikið um það hverjir eigi íslensku bankana en við fáum engin svör. Við fáum engin svör við því hverjir hagnist á því að hér ríki óðaverðbólga, hverjir hagnist á því að hér séu íbúðalán verðtryggð. Við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá hagnaðartölur þessara banka. Hagnaður bankanna skiptir tugum milljarða á ári. Hér er verið að mergsjúga út úr heimilum landsins þær krónur sem til eru. Margir eru komnir í mikil vandræði með greiðslur og heimili landsmanna eru yfirskuldsett eins og komið hefur fram. Þær fregnir berast að erlendir hrægammasjóðir eigi bankana. Þá spyr maður jafnframt um þá aðila sem settu bankana á hausinn. Getur verið að þeir séu með dulið eignarhald í íslensku bankakerfi í gegnum erlent eignarhald? Þetta verður allt saman að rannsaka, virðulegi forseti, og þess vegna hef ég lagt fram þessa tillögu.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta;

„Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki slita- og skilameðferð Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf.

Nefndin greini frá og geri opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.

Nefndin fjalli einnig um viðamestu sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf. og NBI hf. (nú Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.). Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.

Nefndin upplýsi nánar um undirbúning og framkvæmd löggjafar um skila- og slitameðferð bankanna sem sett var í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar þeirri lagasetningu. Þá leggi hún fram tillögur til úrbóta telji hún þörf á.

Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem slita- og skilameðferð bankanna og reglur þar um höfðu fyrir íslenskt samfélag.

Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.

Rannsóknarnefndin skili forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 15. mars 2014 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.“

Virðulegi forseti. Tíminn hleypur frá mér þannig að ég hef ekki tíma til þess að fara yfir alla greinargerðina en ég hvet fólk til að kynna sér málið. Það getur nálgast þetta þingskjal á netinu á vef Alþingis, leitarorðið er þingskjal 820, 527. mál. Þá getur fólk kynnt sér út á hvað þetta gengur.

Það sem ég vil árétta hér í lok máls míns er þetta: Í Evrópureglum var gerð krafa um að einkavæða bankana hér í kringum síðustu aldamót. Það vita allir hvað gerðist í kjölfarið þegar efnahagshrunið varð. Ég minni á að áður en bankarnir voru einkavæddir, ríkisbankarnir Landsbankinn og Búnaðarbankinn, um síðustu aldamót fór fram mjög vönduð vinna, hér var einkavæðingarnefnd að störfum og fyrir lá verðmat og farið var faglega í söluna á bönkunum, reynt að fá erlenda aðila til þess að koma inn í kaup á bönkunum o.s.frv. Að því leyti var vinnan langtum faglegri en í seinni einkavæðingunni því að ekkert verðmat lá að baki henni. Það hefur aldrei verið upplýst hvernig verðið var fundið út og það vantaði fagaðila til að verðmeta bankana og sjá um að salan væri fagleg. Ekki fór fram útboð heldur. Allt vinnulag við einkavæðingu bankanna, hina síðari, var í molum, það skal alveg viðurkennt, og þess vegna er óásættanlegt að ekki hafi verið farið ofan í saumana á því fyrr. Þetta verður að skoða. Þær ákvarðanir sem voru teknar á haustdögum 2010, að afhenda lánardrottnum Kaupþings og Glitnis umhugsunarlaust nýju bankana án þess að gera grein fyrir ástæðu þess frekar, eru mjög athugaverðar.

Virðulegi forseti. Til þess að byggja samfélagið upp á ný eftir hrun er nauðsynlegt að eignarhald á bönkunum sé ljóst. Hverjir eru að pína íslensk heimili til þessara greiðslna? Það verður að koma í ljós hvernig eignasöfnin voru flutt á milli. Það verður að liggja fyrir því fjárhagslegt mat hvað fór á milli og hverja er verið að rukka. Nú hefur komið í ljós samkvæmt fréttum, virðulegi forseti, og fullyrt að hér sé jafnvel verið að innheimta lán sem eru löngu afskrifuð og finnast ekki frumgögn um hér á landi en samt halda þessir andlitslausu bankar áfram að rukka almenning. Þetta er óásættanlegt.

Virðulegi forseti. Þessi rannsókn verður að fara fram. Það verður að fá upplýst hvernig var staðið að þessari yfirfærslu á sínum tíma því að það er um svo langtum stærri upphæðir að ræða en í fyrri einkavæðingunni og svo langtum meiri hagsmunir fyrir íslenskt þjóðarbú. Því er tímabært að þessi rannsókn fari af stað.

Ég vísa þessu máli til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að umræðu lokinni.