141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[17:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þetta mál. Við sitjum nú saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, þar sem meiri hluti þeirrar nefndar og reyndar meiri hluti þessarar ríkisstjórnar, sem er orðin sannkölluð minnihlutastjórn í dag, hefur keppst við að fara í hverja rannsóknina á fætur annarri á fortíðinni. Hins vegar hefur nefndin ekki viljað á það hlusta að fara í rannsókn á þeirri einkavæðingu sem hæstv. atvinnuvegaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur staðið fyrir.

Ég tel þetta mál sannarlega vera þess eðlis að það þurfi að skoða miklu nánar. Að sjálfsögðu hefði átt að gera það þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn lagði til rannsókn á gömlu einkavæðingunni, sem nota bene hefur nú verið rannsökuð fram og til baka í gegnum tíðina, að rannsaka þá banka sem hér eru undir. Það var brýnt.

Erindi mitt hér er fyrst og fremst að taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvað þetta mál varðar. Ég veit svo sem ekkert um hvað gerist í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ræður húsum og er nú fyrst og fremst upptekin við að snúa við þjóðfélaginu með breytingum á stjórnarskrá.