141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu bankanna, hina síðari. Eftir hrun, í kjölfar neyðarlaganna, voru settir á laggirnar þrír bankar sem væntanlega hafa verið í eigu ríkisins til að byrja með, ég reikna með því, þeir hafa þá fengið eigið fé og annað slíkt frá ríkissjóði, þeir voru alla vega starfandi og tóku við öllum verkefnum föllnu bankanna. Þeir fengu stjórn og fjármagn og annað slíkt og tókst að bjarga greiðslukerfinu og öllum rekstri bankanna með þeim hætti. Það var mjög skynsamlegt í sjálfu sér. Það má vel vera að sú aðferð að setja það undir gömlu bankana hafi komið í veg fyrir málaferli sem hugsanlega hefðu staðið í áratugi um það hversu stórir afskriftasjóðirnir væru, því að þegar kröfuhafarnir og bankarnir sjálfir áttu bankana högnuðust þeir á því að hafa afskriftasjóðina stóra og bankana sterka, enda kemur í ljós að þeir hafa getað ráðið við mikil áföll sem á þeim hafa dunið, eins og þegar í ljós kom að stór hluti af lánveitingum þeirra var dæmdur ógildur, þá á ég við gengistryggðu lánin. Svo hafa þeir náttúrlega þurft að mæta miklum afskriftum, gífurlegum afskriftum, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, sem leiddu af hruninu og einhverjar voru kannski fyrir hendi áður.

Það sem ég vildi koma inn á hér er að þegar rætt var um rannsókn á einkavæðingu bankanna hina fyrri kom fram mjög skýr vilji hjá fulltrúum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem um málið fjallaði, til að rannsaka það mál og tengja það einkavæðingu bankanna hinnar síðari. Ég beið alltaf eftir því að eitthvert frumvarp kæmi frá nefndinni, ég á nú ekki sæti í henni sjálfur, en það hefur ekki gerst. Ég minnist þess að hv. þm. Lúðvík Geirsson, sem var framsögumaður málsins, að mig minnir, hafi tekið mjög vel í það að einkavæðingin hin síðari yrði rannsökuð. Það er líka ýmislegt á huldu með hana. Ég tel nauðsynlegt að upplýsa um ýmsa þætti þar, ekki þannig að það sé eitthvað slæmt eða slíkt, það gætu verið góð rök fyrir því öllu saman, en það hefur ekki verið upplýst. Mér finnst mjög brýnt að sem mest gagnsæi sé í öllum þeim ferlum sem fóru í gang fyrir og eftir hrun og það þurfi ekki síður að rannsaka einkavæðingu bankanna hina síðari, eins og hér er lagt til, en þá fyrri.

Ég reikna með því að sama rannsóknarnefnd og rannsakar fyrri einkavæðinguna taki þessa rannsókn í framhaldinu eða samhliða eða eitthvað slíkt, en það á eftir að ræða í nefndinni. Málið fer til vinnslu í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég geri ráð fyrir því að það fái greiða og góða meðferð þar að lokinni þeirri umræðu sem hér átti sér stað og verði síðan lagt fyrir Alþingi þannig að við getum greitt um það atkvæði og samþykkt það. Ég geri ráð fyrir því að allir vilji að þessi tillaga verði samþykkt.