141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Mig langar til að koma hingað aðeins í andsvar.

Það er rétt munað hjá þingmanninum að hér var mikill velvilji hjá stjórnarmeirihlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að málið mundi fá forgang kæmi það sem sjálfstætt mál fyrir þingið. Ég hef lagt á mig mikla vinnu og margar ræður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fá meiri hlutann á mitt band. Þetta hefði átt að vera breytingartillaga við þingsályktunartillögu um rannsókn á fyrri einkavæðingu bankanna, en meiri hlutanum fannst það algjörlega ófært. Það er víst komið í tísku nú í þinginu að komi þingmaður með breytingartillögu að tillögum stjórnarmeirihlutans er gjarnan talað um laumufarþega, en menn töldu að þetta ætti ekki heima undir þeirri þingsályktunartillögu.

Þá boðaði ég það að ég mundi flytja sjálfstæða tillögu um rannsókn á síðari einkavæðingu bankanna, og var mikill velvilji í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að jafnvel nefndin mundi flytja málið sjálf, sjálf stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, til að þverpólitísk sátt myndaðist um það að fulltrúar flokkanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundu flytja málið með mér. Ég fór yfir það í ræðu minni.

Það varð ekki, því að um leið og breytingartillagan frá mér sem er samhljóða þessari þingsályktunartillögu var felld í þinginu, þá snerist þessum þingmönnum hugur. Rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna, hinnar fyrri, var samþykkt í þinginu með 24 atkvæðum, og þá skyndilega skiptu þeir þingmenn um skoðun og var þetta mál þá algjörlega orðið ófært, sem leiðir hugann að því að stjórnarflokkarnir vilja rannsaka fortíðina, langt aftur í fortíðina, en vilja ekki láta rannsaka þau mál sem skipta íslenskt samfélag máli í dag, eins og þetta mál hérna þegar síðari einkavæðingin fór fram. Það er umhugsunarefni að þingmenn gangi svo á bak orða sinna jafnvel til þess að liðka fyrir að þingmál komist hér í gegn.