141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[18:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég á nú bágt með að trúa því að vilji manna til að rannsaka og upplýsa mál sé einhvern veginn háð flokkspólitískum áhrifum. Ég held að hreinlega hafi verið vilji til þess að upplýsa um þau mál í einkavæðingunni fyrri sem menn töldu vera óljóst, þó að það hafi reyndar þegar verið rannsakað nokkuð ítarlega. Ég skynja það þannig að menn hafi vilja, einlægan vilja, til þess að rannsaka einkavæðinguna hina síðari til að upplýsa um og sýna gagnsæi í ferlinu, þannig að ferlið verði upplýst og gagnsætt og menn þurfi ekki að rífast um hvað gerðist.

Ég tók undir hvort tveggja og tel að það sé af hinu góða að upplýst sé um einkavæðinguna hina fyrri. Það var ýmislegt þar sem menn hafa ekki fengið á hreint. Ekki síður tel ég mikilvægt að upplýst sé um einkavæðinguna hina síðari vegna þess að þar er eiginlega allt óljóst. Maður veit ekki einu sinni neitt um þau hlutafélög sem voru stofnuð um bankana, um rekstur þeirra, maður veit ekki hvaða dag þau breyttust — ég veit það alla vega ekki — allt í einu voru þau í einkaeign eða fóru í einkaeign, voru sem sagt einkavædd með því að slitastjórnirnar tóku yfir ákveðinn hlut, nema náttúrlega hjá Landsbankanum. Þar hafði stærsti kröfuhafinn ekki áhuga á því, sem var breska og hollenska ríkið, þau ríki hafa engan áhuga á því að eiga banka á Íslandi. Þar voru nefnilega sett ákvæði inn í skuldabréf sem var gefið út að það skyldi háð afkomu bankans. Það sýnir vandann við það að búa til nýjan banka að það getur orðið deilumál um hvað afskriftasjóðirnir eru safaríkir.