141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

orð forseta Íslands um framgöngu Breta og hryðjuverkalögin.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það eru fleiri en forsætisráðherra Bretlands sem hafa greint þróun mála í Evrópusambandinu að undanförnu. Forseti Íslands gerði það ágætlega í viðtali við Sky sjónvarpsstöðina sem hefur verið sýnt víða um lönd. Hann bendir þar á að Evrópusambandið sé að breytast mjög hratt í allt annað fyrirbæri en það var á sínum tíma, að það sé að renna hratt saman og stefna í að verða einhvers konar sambandsríki. Auk þess hafi evrusvæðið afhjúpað sig sem allt annað fyrirbæri en menn héldu.

Forseti Íslands hélt áfram að benda á staðreyndir varðandi Icesave-málið og málshöfðun ESA gegn Íslendingum í því máli. Þar er grundvallarstaðreyndin sú að EFTA-dómstóllinn mun ekki dæma Íslendinga til að greiða tilteknar skaðabætur. Forsetinn segir að sá misskilningur hafi þó komið upp, ekki hvað síst að því er virðist vegna þess að íslenska fjármálaráðuneytið hafi sent frá sér upplýsingar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem bárust einnig til lánshæfismatsfyrirtækja sem gáfu mjög villandi mynd af því í hvað stefndi. En forseti Íslands hefur verið duglegur við að leiðrétta það og benda á hvers eðlis þessi málaferli eru raunverulega. Auk þess sá forsetinn ástæðu til að ítreka hversu óánægðir Íslendingar væru með framgöngu Breta og ekki hvað síst ríkisstjórnar Gordons Browns þegar hún setti hryðjuverkalög á Ísland. Allt er það umræða sem mikilvægt er að fulltrúar Íslands séu duglegir að halda á lofti.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún vilji ekki taka undir með mér að það sé fagnaðarefni að forseti Íslands skuli hafa hnykkt á þeim grundvallaratriðum og þakka forsetanum fyrir þá framgöngu og jafnframt að taka undir málflutning forsetans í Davos.