141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

orð forseta Íslands um framgöngu Breta og hryðjuverkalögin.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Varðandi samrunann í Evrópusambandinu held ég að forsetinn hafi orðað það þannig að margir hefðu áhyggjur af þróuninni innan ESB. Hvað varðar það að þróunin sé í átt að sambandsríki þá efast hæstv. forsætisráðherra um að sú sé raunin. Hún ætti þá kannski að ræða við forsprakka Evrópusambandsins sem hafa margoft lýst því yfir opinberlega að þeir telji það hina eðlilegu og nauðsynlegu þróun.

Hæstv. forsætisráðherra segir að Bretar skuldi okkur afsökunarbeiðni vegna beitingar hryðjuverkalaganna. En er staðan ekki aðeins alvarlegri enn svo? Vill ekki hæstv. forsætisráðherra styðja tillögu sem við framsóknarmenn höfum lagt fram í þinginu og beitt okkur fyrir um að Bretum verði stefnt vegna beitingar hryðjuverkalaganna?

Af því að hæstv. forsætisráðherra segir að Bretar skuldi okkur afsökunarbeiðni þá var staðan sú síðast þegar ég vissi að íslensk stjórnvöld höfðu ekki einu sinni gert formlega athugasemd við beitingu hryðjuverkalaganna, þeim hafi ekki einu sinni verið mótmælt formlega. (Forseti hringir.) Svo segist hæstv. forsætisráðherra vera að bíða eftir afsökunarbeiðni núna mörgum árum seinna. Hefur beitingu hryðjuverkalaganna verið formlega mótmælt af hæstv. forsætisráðherra?